Elsku Ásta mín!
Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Í gær voru 8 mánuðir frá því að þú kvaddir okkur. Finnst samt eins og þetta hafi gerst fyrir nokkrum dögum síðan. Magnað hvað væntumþykjan, virðingin og stoltið situr fast í hjörtum okkar. Írenu dreymdi þig um daginn. Litli engillinn var í faðmlögum við móðir sína rétt áður en hún vaknaði. Gaman ad heyra hvað þú sækir sterkt í börnin þrátt fyrir ný heimkynni.
Ég get varla beðið lengur eftir bréfinu þínu. Eins og margir vita var Ásta okkar mjög skipulögð. Þegar hún gerði sér grein fyrir að skammt var til stefnu lét hún fara með sig í bæinn að versla gjöf og bréfsefni. Tilefnið var að Daði bróðir yrði sérfræðingur í skurðlækningum í febrúar 2008. Gjöfin var keypt og skrifaði Ásta bréf til mín sem ég fengi svo afhent þegar að stóra deginum kæmi. Hún lét mig vita af þessu nokkrum dögum fyrir andlát sitt og síðan þá hefur þetta ekki horfið úr huga mér. Ég hlakka óendanlega mikið til að sjá ritstíl þinn aftur, upplifa kærleikan sem ríkti okkar á milli og skynja nærveru þína.
Takk fyrir að hafa verið til,
Daði