Færslur: 2006 Desember

31.12.2006 18:18

Gleðilegt ár snúllurnar mínar !!!

Gleðilegt ár snúllurnar mínar !!!

Takk kærlega fyrir öll fallegu kommentin. Þau hafa hjálpað mér rosa mikið og meira að segja náð að draga mig upp þegar ég hef verið down. Endilega haldið því áfram !!

Ég mun halda áfram að blogga hér á fullu á nýju ári .... losnið ekkert svo auðveldlega við mig ... íhaaaaa.

Sendi áramótarknús á ykkur öll..... .

29.12.2006 21:52

Friday

Dagurinn í dag er búinn að vera frábær dagur. Ég svaf lengi út enda ekki skrítið því ég svaf ekki nema 4 tíma nóttina þar áður. Hitti hana Grétu mína. Skelltum okkur fyrst út að borða á Vegamótum .. hehehe ... kemur ekki á óvart ....sá staður verður yfirleitt fyrir valinu ef ég fæ að ráða . Þaðan lá leið okkar upp á spítala því ég átti að losna við dæluna í dag. En því miður kom það í ljós að það hefur myndast einhver stífla í lyfjabrunninum mínum og lyfið því ekki náð að komast inn í líkamann þannig að þær losuðu um stífluna og ég verð að hafa fröken dælu einn sólahring lengur. Það verður bara að hafa það . Eftir það skelltum við okkur í Kringluna og ég verslaði smá föt á krakkana á útsölunni í Hagkaup. Fannst samt úrvalið þar frekar lélegt.

Þessi lyfjatörn er búin að vera nokkuð góð. Reyndar er ég á tvöföldum steraskammti svo mikið hef ég ekki fengið áður. Ég varð bara svo veik síðast þannig að doksi vildi auka við sterana og ógleðislyfin. Mér finnst það fínt fyrir utan ofvirknina sem virðist fylgja sterunum. Annað hvort verður maður virkilega hátt uppi með munnræpuna á fullu, brosandi allan hringinn eða þá að maður fellur langt niður í hálfgert þunglyndi. Ég hef einu sinni lent í þunglyndinu annars er ég yfirleitt þessi á bremsulausa bílnum sem ræður ekki við sig. Mér finnst það nú skárri kostur af tvennu illu . Lendi samt stundum í því að fólkið mitt sussi á mig því allt í einu er ég farin að tala svo hátt eða þá að ég sé spurð hvort ég sé ekkert að verða þreytt í munninum ... heheheh.... mér finnst það bara frekar fyndið . Einu sinni opnaði ég ískápinn minn ca 17 sinnum og mamma spurði mig hvort að ég héldi virkilega að eitthvað myndi breytast inni í honum á milli þess sem ég opnaði ... hahahahhaha.... ég bara réð ekki við mig.

Gréta mín er nýfarin og ég er búið að koma mér í kósý náttbuxur og hlýrabol. Ég er sko náttbuxnasjúk og ég veit hreinlega ekki hversu margar náttbuxur ég á. Elska að hoppa í þær þegar ég er heima og kúra undir sæng og horfa á imbann eða lesa góða bók. Ég er frekar heimakær og finnst gott að letast hér heima en stundum á ég erfitt með að vera ein með sjálfri mér því eins og þið hafið kannski verið vör við.......þá á hausinn á mér stundum það til að fara á flakk og á mig sækja erfiðar hugsanir..... En eins og núna þá er ég alveg róleg og er mjög bjartsýn á framhaldið og finnst virkilega gott að vera ein með sjálfri mér. Sleppi því bara að kveikja á tónlistinni minni ... veit ekki alveg hvað það er með tónlistina..... einhvern veginn þá opnar hún allar gáttir og þá fer ég að skæla eins og barn. Frekar skrítið og ég hreinlega skil ekki afhverju þetta gerist alltaf. Get hlustað á hana með öðrum en ekki þegar ég er ein. Kannski á maður bara að kveikja á henni reglulega til að hreinsa út en mér finnst virkilega vont að fá kvíðakast þegar ég er ein.

Mig langar að spyrja ykkur lesendur góðir hvernig hugsið þið til dauðans ??? Hræðist þið hann ??? Haldið þið að við deyjum og fæðumst aftur seinna ??? Hittum við ættingja og vini sem hafa dáið á undan okkur ??? Er líkaminn okkar bara hulstur eða eins og bíll sem að bilar og skemmist með tímanum og við fáum svo annað hulstur seinna þegar við höfum náð einhverjum þroska ??? Eða er bara allt svart eftir að við deyjum og öllu lokið ??? Ég hef stundum sjálf velt þessu fyrir mér. Mér finnst pínu óhugsandi að öllu sé bara lokið þegar við deyjum. Ég vona allavega að þegar minn tími kemur að ég fái að hitta alla ættingja mína sem eru farnir. Finnst eitthvað svo óhugsandi og óaðlaðandi að hugsa til þess að allt sé bara svart og maður rotnar í einhverri mold. Afhverju deyja þá sumir sem ungabörn eða ungir??? Hver var þá eiginlega tilgangurinn með þeirra stuttu komu í þetta líf ???

28.12.2006 10:35

Ísafold

Í gær fengið þið að sjá hvað leyndarmálið mitt var .  Ég var semsagt valin Íslendingur ársins af tímaritinu Ísafold. Blaðið kemur í verslanir í dag og þar getið þið nálgast viðtalið við mig ef þið hafið áhuga.  Vá þetta var ekkert smá mikill heiður og ég er hreinlega orðlaus yfir þessu öllu saman. Ég vil þakka Reyni Traustasyni  sérstaklega fyrir.... virkilega yndislegur maður þar á ferð og ég vil líka þakka fyrir öll frábæru verðlaunin sem ég fékk.  Ég og Reynir Trausta mættum síðan saman í Ísland í bítið í morgunn og ég er rosalega sátt með þetta allt saman og þrátt fyrir öll mín veikindi þá hafa veikindi mín samt gefið mér virkilega margar góðast stundir. Ég er alveg farin að sjá það að íslendingar eru virkilega gott fólk ... Ég hef virkilega fengið að finna fyrir því af eigin reynslu síðustu mánuði.

Lyfjameðferðin gekk virkilega vel í gær ... Gréta vinkona mætti eldsnemma með mér og það var alveg yndislegt að hafa félagsskap. Halla læknir lét mig fá stærri stera skammt því ég varð svo lasin síðast og líka til að ég gæti staðið undir öllu þessu sem er búið að vera að gerast síðastliðin sólahring .

Fer aftur upp á spítala um hádegi í lyfjameðferðardag 2 og losna svo við fröken dælu á morgunn.

Takk fyrir öll fallegu kommentinn ykkar .... sendi knús á línuna.

Kv Ásta Lovísa

25.12.2006 10:36

Gleðileg jól !!!

Gleðileg jól snúllurnar mínar

Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar frá ykkur  . Gaman að sjá hvað margir sem þekkja mig ekki sendu mér fallegar kveðjur. Endilega haldið þessu áfram .. hehehehe.... .

Aðfangadagur var æðislegur dagur. Enginn ástæða til að kvíða svona fyrir honum eins og ég var búinn að vera að gera . Krakkarnir voru fjörug enda aðfangadagur og mikið um að vera .... en þau voru samt svo yndisleg og það var virkilega gaman að hafa þau. Það var svo gaman að fylgjast með svipnum á þeim þegar þau réðust á pakkana sína. ..hehehehe.....Nú er aðfangadagur búinn og eftir að hafa verið með þeim þennan yndislega aðfangadag sannfærði mig um að reyna allt til að fá fleiri aðfangadaga með þeim. Ég bara skal !!! Höddin mín maturinn var frábær ... takk kærlega fyrir okkur.

Í dag förum við svo saman í jólaboð til Ingibjargar ömmu. Það verður án efa skrítið að fara þangað því afi er svo ný látinn og verður því örugglega hálf tómlegt að fara þangað. Fyrir einhverjum árum síðan var alltaf fullt af ættingjum í þessum jólaboðum á jóladag, en því miður þá er meiri hlutinn af ættinni minni látinn úr erfðasjúkdómnum sem er arfgeng heilablæðing. Blóð mamma mín lést úr honum þegar ég var að verða 8 ára og systir mín árið 2000. Finnst skrítið að hugsa tilbaka og bera þessa tíma saman. Eins og ég hef sagt áður þá var ég svo heppin að pabbi byrjaði með yndislegri konu þegar ég var 3 ára. Þau reyndar slitu samvistum þegar ég var 10 ára en þessi kona skildi svo sannalega ekki við mig og ennþá daginn í dag kalla ég hana mömmu og börnin mín hana ömmu. Þessi yndislega kona á afmæli á morgunn... íhaaaaa.... maður verður nú að kíkja á kellu og knúsa hana í klessu í tilefni dagsins .

Aðeins tveir dagar í lyfjameðferðina og loksins fæ ég Avastinið aftur ...... jibbýýýýý...... Hlakka til að fá þessa gulldropa því þeir voru sko sannarlega að standa fyrir sínu síðast. Aðeins eftir 2 skipti var hægt að sjá minnkun á meinvörpunum á myndum. Það er kraftaverk því Halla krabbameinslæknir var búin að segja mér að eftir 6 skipti þá væru góðar fréttir að meinvörpin væru búin að standa í stað og svo eftir önnur 6 skipti ætti ég að vonast eftir minnkun.....meira væri ekki hægt að fara fram á fyrst um sinn. Þannig að þetta er greinilega undralyf fyrir mig .

Kv Ásta Lovísa

 

 

23.12.2006 19:30

Aðeins verið að stelast í tölvuna :Þ

Tók mér pásu og ákvað að bulla hérna í ykkur nokkrar línur...... eða kannski margar það bara fer alveg eftir munnræpunni .

Stella vinkona kom til mín gærkvöldi þessi elska og vorum við að pakka inn gjöfum frá klukkan 20 fram að miðnætti ..... dæs.... Þetta ætlaði aldrei að taka enda .... hehehe...... Sofnaði ekki fyrr en um  kl 2 í nótt og krakkarnir vöknuðu klukkan 8 í morgunn .... Merkilegt með þessi börn að þau vilja aldrei vakna þegar þau eiga að vakna en þegar þau mega sofa þá vakna þau fyrir allar aldir..... en þau eru samt yndislegust .

Ég var eitthvað lúin í morgunn með svima og máttleysi þannig að Summi pabbi hennar Írenu Rutar bauðst til að hafa stelpuna þangað til á morgunn... þannig að hún kemur ekki til mín í dag litla skinnið. Þá vonandi næ ég að hvíla mig vel svo að ég verði eldhress á morgunn... íhaaaaaa. Mamma er búin að vera með Emblu í dag þannig að eftir hádegi skellti ég og Kristófer okkur saman á rúntinn að keyra út pakka og láta þrífa bílinn.

Það er dálítið spennandi að fara að gerast 27.desember eftir lyfjameðferðina mína. Ég má ekki segja ykkur hvað það er....  Eina sem ég má segja er að horfa á Kastljósið þetta kvöldið . ....... ÚÚÚúúúúúú spennó !!!! Eins gott að heilsan mín verði í lagi því þetta er aðal koktaildagurinn *krossafingur*.

Ég veit að það eru margir sem að fylgjast með blogginu mínu á hverjum degi. Mig langar að þakka öllum enn og aftur fyrir stuðninginn .... Hvort sem það hefur verið gegnum styrktarreikninginn, með fallegri kveðju hér á blogginu mínu eða gegnum mailið mitt eða bara með því að hugsa fallega til mín eða biðja fyrir mér . Get aldrei þakkað ykkur nóg. 

Þó að sum ykkar þekkið mig ekkert þá er ykkur velkomið að kommenta hér eins oft og ykkur lystir... því ef ég hefði enga lesendur þá myndi ég ekki nenna að standa í þessu bloggi. Þið segið að ég gefi ykkur svo mikið með þessum skrifum mínum en þið gefið mér ennþá meira með kommentunum ykkar og mailunum. Þó svo ég svari ekki öllum mailunum þá les ég þau öll. Fæ bara svo mikið af bréfum að ég yrði allan daginn ef ég myndi fara að svara öllum .

Jólaknús og kossar á ykkur öll .

Kv Ásta jólasveinn

22.12.2006 19:31

Þreyta spreyta

Úfff púff... Ég er alveg búin á því eftir daginn. Þó svo ég reyni að taka því rólega þá eru bara svo margir hlutir sem ég þarf að gera fyrir jólin og því miður þá er ég allt of fljót að þreytast . Var farin út fyrir hádegi og var ég ekki komin heim fyrr en um 17. Gréta vinkona var sem betur fer með í för því ég var með þau tvö elstu með mér og var hún í fullri vinnu við að hjálpa mér og stilla til friðar milli systkinana. Þau alveg elska hvort annað þessa dagana eða þannig . Mamma var líka svo frábær að leyfa Kristófer að vera með sér í vinnunni hluta af deginum þannig að dagurinn reddaðist vel þrátt fyrir allt. Það er ekkert smá skrítið hversu fljótt ég er að þreytast.... stundum líður mér eins og gamlingja án gríns og  ég á pínu erfitt með að sætta mig við það.

Eins og ég sagði áður þá kom Gréta mín mér til bjargar í dag. Hún kom til landsins í gær og vá hvað það var gott að sjá hana. Hef ekki séð hana í tæpt ár því hún býr erlendis. Finnst frábært að hafa hana hérna á landinu ... verst bara hvað hún stoppar stutt .

Fjölskyldan skellti sér saman á Sjávarkjallarann í gærkvöldi til að fagna saman afmæli litlu sys. VÁ þessi staður er geggjaður án gríns. Ekkert smá flottur staður, geggjaður matur og þjónustan til fyrirmyndar. Pöntuðum okkur rosa spes samsetningu sem þeir voru að bjóða upp á. Það voru bornir á borð fullt af allskyns forréttum sem að allir fengu að smakka á. Sama var með aðalréttinn fengum fullt af réttum allt frá saltfiski og túnfisk upp í hreindýr. Eftirrétturinn var með sama sniði og ég var fljót að týna tölunni af fjölda rétta sem ég smakkaði og meira að segja margt sem ég hélt að ég myndi aldrei þora að smakka. Allir fóru veltandi út með bros á vör  .

Á morgunn er Þorláksmessa. Þá fæ ég hana Írenu mína líka . Mér finnst æðislegt að fá að hafa krakkana mína um jólin .... hefði ekki tekið annað í mál í ljósi aðstæðna. Er samt pínu hrædd um úthaldið mitt. Er hrædd um að verða of fljótt þreytt og pirruð. Þoli ekki að vera svona ...... pirr pirr pirr. Við vitum öll hversu fjörug og lífleg börn eru á jólunum . Verðum samt mörg saman þannig að ég veit alveg að ég fæ hjálp við að reyna að halda ró á liðinu en er samt pínu kvíðin .. hehhehe... fröken Ásta þarf alltaf að hafa áhyggjur af einhverju . Verður samt frábært að fá að njóta þess að vera með börnunum mínum og með fjölskyldu minni á þessari stundu ....og  ekki er verra að fá góðan mat líka .... mmmmmm.... mér skilst að það verði 3 rétta matseðill a la mamma og Hödd og vonandi líka a la Ásta  .

Lyfjameðferðin hefst svo með fullum krafti 27 des. Þá er Avastinið komið aftur á dagskrá sem betur fer og vonandi höndla ég lyfin betur en síðast.

Veit ekki hvort ég komist í það að blogga á morgunn og hinn enda nóg að gera. Það verður bara að koma í ljós. Til vonar og vara ætla ég að óska ykkur öllum gleðilegra jóla . Ef það er einhver sem er að velta því fyrir sér afhverju það hafi ekki  borist neitt jólakort frá mér þessi jól... þá bara nennti ég ekki að senda nein jólakort núna.....  en ég lofa að taka mig á og geri það næstu jól .

Knús og klemm

Kv Ásta Lovísa

 

 

21.12.2006 12:24

Jæks aðeins 3 dagar til jóla

VÁ ... það eru aðeins 3 dagar til jóla . Mér finnst það alltof stutt... heheheh.... ég er samt búin að gera mest allt.... á reyndar eftir að pakka öllu gjafadótinu inn... en ég fæ hjálp við það annað kvöld. Heimilið er reyndar á haus en það kemur sem betur fer kona til mín á morgunn að taka það mesta. Jólin koma hvort sem það er fínt  hjá mér eða ekki ... hehehe... og ég ætla ekki að spá í því hvort að allt sé tipp topp í þessum málum. Ég get þó allavega slakað á í þessum málum þó ég sé ýkt á öðrum .

Ég skipti um bíl í gær . Það var ekki alveg að gera sig að vera á beinskiptum bíl. Þegar maður er í lyfjameðferðinni þá er maður svo máttlaus og ég tala nú ekki um með fröken dælu sem ég þarf að hafa með mér á maganum þessa daga. Þó maður sé máttlaus þá er maður alveg heill í kollinum og ég vil geta keyrt sjálf og þurfa ekki að vera upp á aðra komin. Þannig að núna er ég komin á sjálfskiptan bíl ... jeiiiiii...... og ég vil þakka Heklu innilega fyrir allt. Mæli með þeim þeir eru frábærir .

Mín elskulega og fallegasta systir er 25 ára í dag. Elsku Höddin mín innilega til hamingju með daginn !!! Hlakka til að fara út að borða með þeir í kvöld .

Var með öll börnin mín í nótt. Það gekk bara ágætlega fyrir sig og Helga mín gisti og hjálpaði mér. Ahhhh það er svo gott að hafa þau svona öll .... minnir mig á tímann áður en ég veiktist.

Á von á skemmtilegri heimsókn á eftir. Guðný frænka sú eina kleina ætlar að kíkja á frænku sína og færa henni sætabrauð og gúmelaði .... mmmmm ... get ekki beðið. Alltaf glatt á hjalla þegar steiktu frænkurnar koma saman. Vantar bara Höddina til að fullkomna þetta .

Hafið það gott í dag .

19.12.2006 19:49

Loksins blogg !!

Helgin hjá mér var fín. Ég sleppti reyndar afmælinu á laugardagskvöldið því ég var á flakkinu allan laugardaginn og bara orkaði ekki meira. Á svo yndislegar vinkonur þannig að þær skyldu mig alveg  þessar elskur .

Ég er eiginlega líka búin að keyra mig út í dag .... ætla seint að læra af reynslunni . Var farin út klukkan 9 í morgunn og kom ekki heim fyrr en seinnipartinn. Skellti þá jólalögum á fóninn og bakaði eina sort .... sem reyndar varð eitthvað skrítinn hjá mér ... heheheh.... fannst ég verða að baka allavega eina sort til að reyna að koma mér í einhvern jólafíling .... fíling sem mér virðist ekki takast að finna. Krakkarnir eiga að koma með smákökur og gos á morgunn í skólann þannig að mig langaði svo að geta bakað þó það væri ekki nema smá. Þannig að þau verða að taka með sér þessar fötluðu smákökur mínar .... sem betur fer keypti ég líka smá þannig að þau fá þá allavega einhverjar venjulegar . Núna sit ég hér og blóta mér þvílíkt fyrir að hafa verið með þessa vitleysu í dag og eftir sit ég lúin, þvílíkt pirruð og að drepast í skrokknum .... Please nenniði að berja eitthvað vit í mig ???? .

Jólin eru eitthvað að angra mig og kvíðahnúturinn virðist stækka og stækka eftir því sem nær dregur jólum. Ég veit ekki alveg afhverju ég læt svona því ég á yndislega fjölskyldu og börn sem ég kem til með að eyða jólunum með og í raun ekkert sem ég ætti að hafa áhyggjur af. Kannski er það bara málið að ég hræðist að fá ekki að njóta þessa yndislega fólks og fá að lifa með þeim um ókomin ár. Upp í huga mér kemur aftur og aftur sú hugsun að kannski séu þetta mín síðustu jól og mér finnst svo sárt að hugsa til þess. Auðvitað ætla ég ekkert að gefast upp og ég mun halda áfram að reyna að gera allt í mínu valdi til að fá að lifa sem lengst eða ná heilsu á ný en þetta er samt alltaf að bögga mig öðru hvoru . Kannski er þetta alveg eðlilegt að syrgja þetta .. allavega þá þarf ég að nota meira af kvíðastillandi þessa dagana. Ég sem var alveg laus úr þessum vítahring að þurfa að taka kvíðastillandi í tíma og ótíma en það er þó betra en að sitja grátandi og að finnast ég vera að kafna undan þessu öllu. Ég skil bara stundum ekki hvað er verið að reyna að kenna mér með þessari lífsreynslu og get ekki að því gert að mér finnst þetta rosalega erfitt .

 Ég horfi á börnin mín og hugsa hvernig þau komi til með að fúnkera í lífinu án mín. Oft felli ég tár og reyni svo að fela það fyrir börnunum mínum að mér líður illa í hjartanu mínu. Stundum tekst það ekki og þau spyrja mig afhverju ég sé leið. Ég gat ekki annað en fellt tár í gær. Ég sat með Kristófer og Emblu við matarborðið ... þá segir Embla allt í einu að einn vinur hans Kristófers hafi sagt að ég væri að fara að deyja. Embla greyið spyr mig hvort það sé satt og hvort að ég muni virkilega ekki batna. Þá svarar Kristófer því að ég muni aldrei læknast. VÁ hvað það var sárt að heyra þetta og geta ekki svarað því hvort þetta sé satt eða ekki. Hjartað mitt brotnaði þarna í þúsund mola. Afhverju þurfa börn alltaf að vera svona grimm ??? Afhverju þarf endalaust að vera velta þeim upp úr veikindum mínum ?? Ég veit alveg að þetta var aðeins 12 ára gamalt barn sem lét þetta út úr sér en þetta stakk mig samt. Finnst bara svo sárt að horfa í augun á englunum mínum og geta ekki gefið þeim nein svör um framhaldið . Finnst líka sárt að vera með þau tvö eldri hjá mér og vera með þetta litla úthald. Ég hef ekkert þol lengur til að umgangast þau án þess að verða þreytt og pirruð fljótt. Finnst erfitt að ef ég kem til með að tapa ... þá eyddi ég tímanum sem ég átti eftir sem þreytt og pirruð mamma. Ekki gaman það fyrir okkur öll !!!!!  Langar svo að vera ég aftur og geta sinnt sjálf öllum mínum börnum og öllu því sem því fylgir.

14.12.2006 18:07

Lyfjameðferð dagur 2

Þá er dagur tvö senn á enda. Halla doksi hafði greinilega rétt fyrir sér með líkamlegt ástand mitt því ég verð svo hrikalega lasin í gærkvöldi eftir lyfjameðferðina. Ég hef oft orðið slöpp en VÁ þetta var bara hræðilegt. Lá bara fyrir og ældi og ældi ... svei mér þá ég hélt varla höfði. Dagurinn í dag verður vonandi betri. Er ekkert flökurt núna ... bara máttlaus eftir gærdaginn. Nú skil ég afhverju Halla vildi alls ekki að ég fengi Avastinið þessa vikuna þrátt fyrri suð og tuð í mér um að ég myndi alveg höndla það. Ég hefði þá bara örugglega endað á sjúkrahúsi í gærkvöldi ef það hefði verið gefið líka. Gott að eiga góðan lækni að sem talar mann til og hefur vitið fyrir mann . Á morgunn losna ég svo við dæluna.

Helgin hjá mér verður þvílíkt busy þannig ég veit ekki alveg hvort ég nái að blogga mikið. Allavega ef ég skrifa ekki þá er engin ástæða til að hafa áhyggjur og senda mér trilljón mail . Þið eruð samt yndislegust og mér finnst alveg æðislegt að sjá hvað mikið af fólki og meira segja fólki sem ég hef aldrei hitt fylgist vel með mér. Mér er boðið í jóla dinner annað kvöld hjá foreldrum Didda. Á laugardaginn ætla ég að hitta tvær vinkonur mínar sem verða 30 ára í þessum mánuði og ætlum við að halda saman smá boð því ég gat ekki haldið upp á mitt afmæli því ég lá á spítlala. Þetta verður án efa voða gaman. Á sunnudaginn er mér svo boðið á jólahlaðborð á Hótel Geysi og ætla ég og Diddi að fara. Mmmmm get ekki beðið eftir að komast aðeins úr borginni og frá öllu þessu venjulega amstri og hugsunum.

Knús á alla línuna.

Kv Ásta Lovísa

13.12.2006 15:21

Lyfjameðferðin

Var að koma heim eftir lyfjakoktail dagsins. Fékk bara þrjú lyf í dag því ég mátti ekki fá aðal lyfið núna út af aðgerðinni. Fæ Avastínið milli jóla og nýárs. Góð jólagjöf það . Fékk reyndar furðulega auðkaverkun meðan ég var á spítalanum. Tungan á mér dofnaði öll upp og ég talaði eins og ég hefði verið á þvílíku fyllerís tryppi en það er að lagast núna sem betur fer. Ekkert smá óþægilegt.

Ætlaði svo að slappa af þegar ég kæmi heim ... en litli voffinn minn er búin að vera með skitu og búinn að vera að æla síðan í gær þannig að ég verð að fara með hann til dýra doksa. Eins gott að það sé allt í lagi með litla Tumalinginn minn.

Ég verð víst að reyna að taka því rólega þessa vikuna því Halla talaði um að það væri meiri líkur á vanlíðan og ógleði núna því það er svo stutt síðan ég var í aðgerð og líkaminn ekki alveg búinn að jafna sig. Verð að reyna að hlýða því en ég er eitthvað ofvirk þessa dagana enda stutt til jóla og svo margt sem þarf að gera.

Þórdís hetja er ein vinkona mín sem greindist með krabbamein í lungunum 20. október sl. Hún er eins og ég einstæð og er með eina litla 8 ára stelpu. Endilega ef þið getið reynið að styrkja þessa yndislegu konu ...... ég veit manna best hvað hjálpin ykkar hjálpaði mér mikið. Það er alltaf erfitt að vera að berjast fyrir lífi sínu og þurfa að hafa áhyggjur af peningum ofan á allt. Ef þið sjáið ykkur fært endilega hjálpið þessari konu. Síðan hennar og allar upplýsingar um hana eru hér : http://68.simnet.is/ . Munið að margt smátt gerir eitt stórt .

Kv Ásta Lovísa

12.12.2006 17:02

Ýmislegt

Svaf út í morgunn og skellti mér síðan upp á Landsa í blóðprufu sem þarf að vera tilbúin fyrir morgunn daginn. Eftir það skellti ég mér í Ljósið og var þar eftir hádegi. Alltaf jafn gott og gaman að fara þangað .

Núna í Ljósinu stendur yfir sýning í Ráðhúsinu til styrktar Ljósinu sem er endurhæfingar - og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Sölusýningin heitir Ljós í silfri og þar er hægt að kaupa skartgripi til að gefa í jólagjafir og allur hagnaður af sölunni rennur til Ljósins. Sölusýningin stendur yfir frá 9.des. - 20.des. og er opið alla daga frá kl 12.00 - 18.00. Endilega kíkið á þetta og styrkið gott málefni. Auglýsingin er hér:  http://ljosid.org/modules.php?full=1&set_albumName=desember2006&id=ljos_i_silfri_A3_2_001&op=modload&name=gallery&file=index&include=view_photo.php

Á morgunn byrjar svo lyfjameðferðin aftur. Ég er eiginlega farin að hlakka til því það er mjög óþægileg tilfinning að vera ekki á neinum lyfjum. Maður verður svo hræddur um að meinvörpin skjóti sér hér og þar eins og graftarbólur. Aldrei bjóst ég við því að ég yrði svona glöð með að fara í lyfjameðferðina en svei mér þá þá er ég það virkilega. Það var ein sem sendi mér mail og talaði um að ég ætti að prufa þegar ég væri í lyfjameðferðinni að ýminda mér að ég væri í Pacman leik. Sjá fyrir mér Pacman kallinn éta meinvörpin ... heheeh ..... mér finnst þetta pínu skondin hugmynd  .

Fyrst þegar ég veiktist þá hugsaði ég alltaf um krabbameinið sem óvin... blótaði því og talaði mjög neikvætt um það. Það má bara ekki hugsa þannig. Krabbameinið er ekkert annað en mínar frumur sem að klikkuðu og fóru að fjölga sér of mikið. Samt sem áður eru þetta mínar frumur og eru hluti af mér hvort sem þær eru heilbrigðar eða óheilbrigðar. Ef ég ætla að tileinka mér þá hugsun að ég sé að berjast við þennan óvin þá er ég að segja líkamanum mínum að berjast við sjálfan sig og það er  ekkert nema niðurbrot. Ég vil frekar hugsa til lifrarinnar með kærleika og án gríns næstum því tala við hana og segja við hana að við stöndum saman í því að laga það sem hefur klikkað. Sjá fyrir mér heilbrigðu frumurnar vinna í þeim óheilbrigðu með von um lækningu. Þið sem eruð krabbameinsveik reynið að tileinka ykkur þessa hugsun ... ég veit að það er erfitt en annars eruð þið að berjast við ykkur sjálf og það er ekki það sem við viljum.

11.12.2006 11:34

Blogg

Letin alveg að drepa mig í dag var fyrst núna að skríða úr rúminu . Ég hef reyndar löglega afsökun ... var svo mikið um að vera hjá mér í gær og ég því orðin alveg úrvinda. Systir mín og co mættu hérna í hádeginu í gær og við máluðum piparkökur með krökkunum. Mér leið betur eftir að hafa gert það því ég fékk svo mikin móral yfir að hafa ekki treyst mér að mála piparkökur með Írenu á leikskólanum hennar. Þannig að núna get ég andað léttar .  Eftir það eða kl 16 byrjaði svo afmæliskaffið hans Kristófers fyrir þá allra nánustu ættingja. Ég bara hafði ekki krafta í að halda þetta neitt stærra. Það er maður sem kallar sig bakarinn á barnalandi sem að bakaði þvílíkt flotta Arsenal köku handa stráknum og hún hitti ekkert smá í mark hjá drengnum. Mæli 100% með honum og ég held að hann sé með síðuna kaka.is á netinu. Kristófer fær svo að bjóða strákunum í bekknum sínum í keilu í dag ásamt öðrum afmælisstrák í bekknum. Ég og mamma hans ætlum að slá þessu saman og þetta verður án efa skemmtilegt fyrir þá.

Helgin gekk bara vel fyrir sig. Var með öll börnin laugardagsnóttina og mamma var hér líka mér til stuðnings. Er reyndar pínu þreytt og lúin en það bara gerir ekkert til því helgin var þess virði.

Ég er búin að gera samning við guð . Ef hann leyfir mér að lifa og ná heilsu á ný þá ætla ég að vinna í þágu krabbameinsveikra. Ég hef séð hvað þetta blogg mitt hefur vakið gríðarlega athygli og ég hef séð hvað sagan mín hefur hjálpað öðrum. Ég er því alveg ákveðin í því að ef ég fæ heilsu aftur þá mun ég gera allt mitt til að bera minn boðskap áfram og vera til staðar fyrir þá sem þurfa þess. Vonandi að ég fái að standa við þessi orð mín og þennan samning.

Knús á ykkur öll

K Ásta

09.12.2006 19:53

Laugardagur

Ég svaf eins og steinn í morgunn. Var alveg búin á því eftir allt rápið deginum áður. Lærði smá lexíu þar..... Er ennþá stirð og þreytt ... Í hádeginu fór ég í klippingu til mömmu. Varð að stytta það alveg eða það nær niður á kjálkabeinin. Ég hef ekki verið með svona stutt hár síðan ég var barn og mér finnst það pínu sárt að hafa þurft að klippa það svona stutt. Hárið á mér hrynur svo rosalega að það var bara ekkert annað hægt í stöðunni.  Hárið vex aftur þannig að ég verð bara að sætta mig við þetta þangað til.

Eftir klippinguna fór ég á Vegamót með Hödd systir. Fengum okkur gott að borða og áttum góða systra stund. Vegamót er frábær staður ... Hann er svo ódýr og maturinn þarna er frábær og þjónustan til fyrirmyndar. Held að þetta sé með þeim ódýrustu stöðum sem við eigum hér á höfuðborgarsvæðinu. Mæli 100% með honum. Eftir það fór ég heim og lagði mig smá til að safna kröftum áður en börnin komu. Núna eru öll börnin mín hjá mér og ætla að vera hérna í nótt. Mamma ætlar að vera hérna líka og ætlum að hafa það kósý hérna inni í vonda veðrinu .

Á morgunn ætla ég að mála piparkökur með krökkunum og eftir það verður smá afmælisboð fyrir nánustu ættingja mína.  Allt að gerast hjá Ástunni núna og mér finnst fínt að hafa nóg fyrir stafni..... Minni líkur á að kvíðaköstin banki upp á .

Knús á ykkur öll og takk fyrir öll fallegu kommentin .

Kv Ásta Lovísa

08.12.2006 22:07

Ásta skakka :Þ

Þið sem hafið verið að hafa áhyggjur af mér eftir skrif mín í gær ... þá vil ég bara segja að ég er miklu brattari og líður mun betur í dag. Ég hóf daginn snemma og skellti mér aftur á ráp með henni Sirrý minni. Viti menn ég er næstum því búin að kaupa allar jólagjafir og þessar 6 afmælisgjafir sem ég þurfti að kaupa. Ekkert smá glöð með það. Ég gekk samt aðeins of langt í dag .... var í rápi í allan dag og núna er ég svo stíf í líkamanum að ég get ekki verið bein ... heheheh .... er Ásta skakka í kvöld .

Í gær var ég lítil og í dag ætla ég að vera stór. Ég veit alveg að svona dagar koma og munu halda áfram að koma og það er svo gott að geta fengið útrás hér. Margir segja við mig að ef þeir vilja vita hvernig mér líður þá sé það best að lesa bloggið mitt því ég segi alltaf að ég hafi það fínt þó svo mér líði ekki þannig. Það er alveg rétt það er bara eitthvað við þetta blogg sem fær mig til að opna mig og segja nákvæmlega hvernig mér líður hverju sinni. Kannski af því tölvan er dauður hlutur sem ekki talar tilbaka eða eitthvað og hún dæmir ekki það sem ég segi. Ég veit hreinlega ekki alveg hvað það er sem fær mig til að opna mig alveg að innstu hjartarótum. Ég held að ef ég hefði ekki þetta blogg þá væri ég með ennþá stærri hnút í maganum sem væri þar fastur.

Snúllinn minn er 11 ára í dag. VÁ hvað ég er stolt af þessum fallega og ljúfa dreng. Hann er búinn að vera alveg ótrúlegur í mínum veikindum og hefur þurft að vera svo stór og bjarga sér svo mikið sjálfur. Ég sé það á bæði Emblu og Kristófer hvað veikindin mín hafa þroskað þau hratt og mikið. Börnin mín öll þrjú eru sannar hetjur og hafa verið svo dugleg í þessu öllu saman og sem betur fer eiga þau góða pabba sem geta stutt við bakið á þeim líka í gegnum þetta allt.

Hafið það gott um helgina og í alvöru mér líður vel og ætla líka að eiga góða helgi.

Kiss og knús

Kv Ásta Lovísa

07.12.2006 21:33

Smá bögg

Hvað er málið með mig og tónlist ??? Ég hef alltaf verið svo mikil tónlistarkelling þá aðallega í vælu lögunum ... en núna eftir að ég veiktist þá virðist ég ekki geta hlustað á lögin mín án þess að ég fái kvíðakast... Æji þetta er svo vont því allar særandi hugsanir sækja þá svo á. Ég skrapp út með vinkonu minni núna í kvöld og kom svo heim, kveikti á tónlist og lét renna í bað og bara BAMM! Allt í einu sat ég skælandi eins og lítið barn sem vantaði knús. Afhverju get ég ekki hlustað á tónlist án þess að óæskilegar hugsanir banki upp á ???? Hugsanir eins og ... kannski séu þetta mín síðustu jól sem ég fæ að eiga með börnunum mínum og ég verði að gera sem mest úr þeim fyrir okkur..... ohhhh mér finnst ég vera að kafna!!!  Ef ég næ svo ekki að standa undir þeim væntingum að halda hin fullkomnu jól. Svei mér þá það er stærðar kvíðakögull í maganum mínum núna og mér finnst ég svo ráðvilt eitthvað. Ég sakna þess svo að vera heilbrigð og geta bara haft áhyggjur yfir því hvað skal hafa í matinn þann daginn eða pirra mig út af smá munum. Æji þetta er svo sárt stundum og ég þrái svo að verða heilbrigð aftur.

Á maður að lifa eins og þetta sé manns síðasti dagur??? Á maður að lifa lífinu hraðar þegar svona er komið eða hvað á maður að gera ??? Ég hræðist svo að eiga ekki langt eftir og langar svo að nýta tímann á sem bestan hátt en það er ekki þar með sagt að allir aðrir í kringum mann sem að eru heilbrigðir séu sammála því eða vilja taka þátt í því. Mér finnst ég svo misskilin eitthvað og mér finnst svo oft fólk ekki átta sig á því að kannski verði ég ekki hérna eftir ár... Æji úfff það er svo margt sem er að þjaka mig núna. Mér finnst ég vera að missa af öllu eitthvað og ég fæ samviskubit yfir að eyða degi án þess að gera neitt. Fæ samviskubit yfir að geta ekki verið með yngstu snúlluna mína. Mér finnst ég alveg vera að missa af henni. Það er erfitt að vera lasin og geta ekki sinnt barninu sínu vitandi það að maður er með bannvænan sjúkdóm sem gæti fellt mann á stuttum tíma og ekki geta eitt þessum dýrmæta tíma með henni. Æji mér finnst ég pínu vond mamma og ég veit að það er fáránlegt að finnast það en ég kemst ekki hjá því stundum. Í morgunn var verið að mála piparkökur í leikskólanum hennar og pabbi hennar fór og bauð mér að koma líka og ég bara treysti mér ekki til þess og sagði nei. Eftir á sat ég með móral í allan dag yfir að hafa ekki farið því kannski var þetta eini sjénsinn að mála með henni piparkökur á leikskólanum. Úffff púfff mér fannst ég svo vond og samviskubitið er ennþá að naga mig. Mig langar svo að standa mig og geta gert allt fyrir þau en ég bara get það ekki. Ég hef ekki kraftana eða örkuna og verð svo fljótt þreytt á þeim.

Æji sorry þessi orð mín. Ég bara þurfti að fá að koma þessu frá. Já fröken Ásta er ekki bara kraftaverkakona með jákvæðnina í fyrsta sæti hún Ásta getur líka verið sár, reið, döpur og sorgmædd. Ég er langt frá því að vera fullkomin.

Flettingar í dag: 49
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 159
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 147391
Samtals gestir: 24622
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:21:35

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir

Afmælisdagur:

9. ágúst 1976

Um:

~ Söfnun ~ 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469

Tenglar