Færslur: 2006 Nóvember

29.11.2006 15:04

Ásta Love

Jæja.........það á ekki af henni Ástu minni að ganga........hún er komin aftur á sjúkrahús eftir að hún rauk upp í hita og fékk tilheyrandi verki með............þetta eru einhver eftirköst eftir aðgerðina sem hún fór í um daginn og eru læknarnir að reyna að komast hjá því að skera aftur og vonast til að bjúgur og bólgur hjaðni nú að sjálfu sér.........það er semsagt einhver stífla í gangi aftur..............en við trúum því að Ásta komist nú í gegnum þetta sem allra best og vonandi sem fyrst svo hún geti nú komið og bloggað hérna sjálf c",)

En góðar fréttir...eftir aðeins tvö skipti í krabbameinsmeðferðinni er sjáanleg minnkun á krabbanum sem eru að sjálfssögðu alveg frábærar fréttir...........læknar voru búnir að segja Ástu að eftir 6 skipti væri vonast til að krabbinn hefði staðið í stað þannig að minnkun eftir aðeins tvö skipti eru fréttir til að hoppa hæð sína af gleði fyrir og það geri ég hér með *hopp*...........

Ásta sendir sínar bestu kveðjur til allra og þakkar öllum falleg orð og stuðning...............og við höldum bara áfram að senda á hana góða strauma og fallegar hugsanir.........

Luv............Liljan hennar Ástu c",)

27.11.2006 17:05

Komin heim :)

Jæja þá er kellan bara komin heim .

Ekkert smá gott að komast aftur í sitt umhverfi. Ég er öll að koma til og sárin gróa vel. Nú er bara að bíða þangað til ég fæ grænt ljós á að byrja aftur í lyfjameðferðinni. Finnst það pínu erfitt að geta ekki byrjað strax ... hræðist að fá fleiri meinvörp á meðan. Ég verð bara að krossa fingur og vona að það gerist ekki og ef það gerist þá verð ég bara að taka á því þegar þar að kemur.

Ætla að hafa þetta stutt og lagott í dag. Er pínu lúin óg langar mest að liggja fyrir. Vildi bara láta ykkur vita að ég væri komin heim.

Knús á ykkur öll.

Kv Ásta

26.11.2006 20:15

Pizza a la Dominos

Loksins er ég öll að koma til

Var að enda við að troða í mig Dominos Extra pizzu sem að mamma færði mér hérna á spítalann. Spítala maturinn ekki alveg að gera sig hér eins og vanalega. Spurning hvort að ég fari ekki að senda mömmu í eldhúsið að kenna þessum kokki hvernig á að elda mat .

Fékk að skreppa í smá leyfi í gær. Skrapp með henni Önnu minni heim og síðan á Style-inn... hehhehe.... allt gert til að þurfa ekki að borða hér. Ég var alveg búin eftir þetta brölt. Þegar á spítalann kom hlammaði  ég mér í öllum fötunum upp í rúm og svaf í 2 tíma.

Í dag fékk ég aftur smá leyfi. Skellti mér í bíltúr með Didda og Lenu. Fengum okkur ís......susssss... smá svindl á bindindinu mínu . Allt ísnum að kenna hann eiginlega stökk á mig. Ég sver það !!!

Eins og ég sagði áðan þá er ég öll að koma til og hlýtur að styttast í heimferð. Doksarnir eru allavega farnir að trappa mig niður á verkjalyfjunum og bíða eftir fyrsta tækifæri á að senda mig heim .... ekki það að ég sé svona leiðinleg .

Kiss og knús í bili

24.11.2006 18:35

Skilaboð frá Ástu Love

Ásta Lovísa bað mig fyrir skilaboð til ykkar.

Hún er mjög slöpp núna og hefur enga orku í að blogga elsku kellingin. Hún er enn með hitavellu og mikla ógleði sem gerir það að verkum að hún getur lítið borðað...........eiginlega ekkert. Sem betur fer er allt komið í gang eftir aðgerðina sem þýðir að hún hefur heppnast vel en á meðan þessi hiti og slappleiki er........er Ásta mjög orkulaus.....

Það verður vonandi eitthvað betur skoðað hjá henni með hitann og ógleðina.........hvort um einhverja sýkingu sé að ræða aðra en einhverja umgangspest............

Ásta mun blogga aftur við fyrsta tækifæri og við vinir hennar höldum áfram að hafa hana í bænum okkar og góðum hugsunum :o)

Luv...........Lilja

22.11.2006 20:20

Er hér þó á spítala sé :)

Loksins hef ég heilsu til að blogga .... ....Vá hvað það er gott að koma aftur til ykkar!!!

Ætla að segja ykkur hvað gerðist. Fljótlega eftir að ég sofnaði á fimmtudagskvöldið vaknaði ég aftur og ekkert smá kvalin í maga og baki. Ég náttúrulega þrjósk eins og ég er..... harkaði þetta af mér og gerði ekkert í málunum í fyrstu. Ég hélt alltaf að herra verkur yrði hræddur við fröken þrjósku og myndi gefa eftir en það gerðist heldur betur ekki. Sem betur fer þá gisti Diddi minn hjá mér þessa nótt en ekki heima hjá sér þannig að ég pikkaði í hann undir morgunn alveg að drepast og var ég búin að vera að fela fyrir honum hvernig mér hafði liðið alla nóttina. Vildi ekki halda fyrir honum vökum ... hahhhaha... held að það sé ekki til meðvirkari manneskja en ég .  Á þessum tímapunkti lá ég háskælandi í fóstustellingunni og gat mig hvergi hreyft. Ég bað Didda um að rétta mér gsm símann minn og hringdi út til Daða bróðir sem er skurðlæknir í Svíþjóð. Hann sagði mér að rétta Didda símann og hann sagði honum að hringja strax á sjukrabíl.

Á leiðinni upp á spítala skalf ég eins og hrísla. Bæði vegna kulda og líka út af þeirri hugsun að krabbinn væri farinn að dreyfa sér um líkamann og þess vegna væri ég orðin svona veik. Vá hvað ég var hrædd og vá hvað það fóru margar hugsanir um hugann minn þessa stuttu leið. Ég hugsaði að ég gæti núna aldrei farið út með krakkana til Daða eftir jólin og jafnvel að ég næði ekki að lifa til jóla fyrst að ástandið væri orðið svona slæmt.  Enn sem betur fer þá var þetta ekkert tengt krabbanum ... hann meira að segja stendur í stað sem er frábært eftir aðeins 2 meðferðir af Avastini og líka miðað við hvað mínar frumur hafa verið agresívar.

Það sem gerðist var að þegar ristillinn var tekinn í ágúst og svo þegar ég fékk lífhimnubólguna viku seinna þá hefur myndast strengir í maganum sem oft gerist eftir stórar kviðarholsaðgerðir ... hvað þá tvær eins og ég hafði farið í. Þessi strengir strekktu svo allt í einu allt þarna inni og stoppaði alla fæðu og vinnslu í görnunum. Þetta var mjög alvarlegt ástand sérstaklega fyrst ég er á Avastin lyfinu því það má ekki skera fólk á því lyfi vegna blæðingarhættu og erfiðleika með gróunarferli. Læknarnir skelltu sér á netið og fundu nokkur tilfelli þar sem acut mál var að ræða eins og hjá mér og skurðaðgerðir höfðu gengið vel. Samt sem áður biðu þeir í sólahring og gáfu mér sterk verkjalyf á meðan og reyndu allar aðrar leiðir fyrst en án árángurs. Á laugardagskvöldið var ég síðan skorin og þeir pössuðu sig að hafa nóg af blóði og nóg af starfsfólki ef eitthvað myndi gerast sem betur fer varð aldrei til þess. Læknirinn sagði mér að hann hefði þurft að rekja allar garnirnar í gegnum einn strenginn áður en hann gat tekið hann... úff hljómar ekki vel .

Ástandið núna er þannig að eftir þessa stóru aðgerð er garnalömun í gangi. Ég er fastandi og bíð bara eftir að garnirnar taki við sér að nýju. Vonandi verður það   ekki löng bið því hungrið er alveg að fara með mig og ekki hjálpar matarvagninn og matarlyktin til. Ég veit að spítalamatur er ekki þekktur fyrir að vera góður en ég myndi éta hvað sem er núna og mér líður eins og verið sé að svíkja mig um mat af Argentínu eða eitthvað þannig .

Ég er á sömu deild og á sömu stofu og síðast ... hehhehe.. ekkert smá glöð með það því starfsfólkið hér á 12 G á Hringbraut er eitt það besta sem ég hef kynnst og belive me ég hef oft legið á spítala gegnum árin.

Takk fyrir allar fallegu hugsanirnar til mín síðustu daga og ég mun láta heyra í mér núna á hverjum degi ef heilsan leyfir.

Knús og klemm

Kv Ásta Lovísa 

20.11.2006 16:37

Nýjar fréttir af Ástu

Ásta bað mig að setja inn fyrir hana smá fréttir af henni:

Ásta fór í aðgerð á laugardagskvöld, það kom í ljós að garnirnar voru stíflaðar vegna samgróninga eftir fyrri aðgerðina og komst því engin fæða niður. Hún var búin að vera með töluverða kviðverki þegar hún var lögð inn.

Aðgerðin tókst vel þrátt fyrir áhyggjur um aukna blæðingarhættu vegna krabbameinslyfjanna. Hún er að jafna sig en það getur tekið lengri tíma fyrir sárið að gróa vegna krabbameinslyfjanna. Einnig hefur hún verið með hitavellu og smá samfallið annað lungað neðst en það virðist ekki há henni mikið, sem betur fer.

Góðu fréttirnar eru að krabbameinið í lifrinni stendur í stað, sem var það sem vonast var til að krabbameinslyfin myndu hjálpa til við. Meðan engin útbreiðsla né fjölgun er í gangi þá eru það góðar fréttir.

Ásta biður að heilsa öllum og vonast til að komast heim sem fyrst.

17.11.2006 14:24

Skilaboð frá Ástu Love

Lilja heiti ég og er vinkona Ástu Love...........hún bað mig um að koma því á framfæri að hún mun ekki blogga næstu dag því hún er á leiðinni í aðgerð. Góðu fréttirnar eru að þetta voru ekki krabbameinstengdir verkir heldur fylgikvillar upprunalegu aðgerðarinnar sem hún fór í............meinin í lifrinni standa í stað sem eru mjög góðar fréttir.

Ásta verður frá næstu dagana vegna þessa og þakkar öllum hugulsemina og bænirnar...........hún mun blogga aftur við fyrsta tækifæri þegar hún kemur heim af spítalanum.........

Luv..........Lilja

17.11.2006 12:06

Fréttir af Ástu

    Kæru vinir.  Hún Ásta okkar þarfnast bæna okkar allra virkilega mikið núna.  Hún bað mig að skrifa ykkur smá línu, þar sem henni er mjög annt um að þið fáið reglulegar fréttir af henni.

Í nótt fékk hún svo mikla kviðverki og undir morgun var hún flutt með sjúkrabíl vegna verkja í kvið og baki.  Ekki er komið á hreint hvað veldur, en við færum ykkur nýjar fréttir um leið og þær koma.

Allar fallegar hugsanir og bænir vel þegnar akkúrat núna.

Guð og blessi ykkur öll, og kærar þakkir. 

Með kveðju,

Tobba vinkona.

16.11.2006 21:26

Loksins góðar fréttir :)

Sorry að ég sé ekki bún að blogga fyrr í dag .... netið mitt lá niðri um tíma þannig að ég komst ekki á netið. Það eru nokkrir búnir að senda mér mail og voru að hafa áhyggjur af mér.

Loksins fékk ég góðar fréttir for crying out loud .... Hnúturinn var ekki krabbamein heldur var þetta saumahnútur eins og Páll Möller hélt. Vá hvað það var mikill léttir að heyra það. Aðgerðin heppnaðist bara vel, ekkert blæðingarvesen eins og þeir voru hræddir við að myndi gerast. Hann var með eitthvað rafmagnstæki til að stoppa blæðingu til vonar og vara ef það myndi gerast. Ég reyndar féll aðeins niður í blóðþrýstingi en það lagaðist fljótt ... held að hræðslan hafi verið þar að verki.

Mig langar að segja ykkur frá Ljósinu í Neskirkju. Þar er unnið ekkert smá gott starf fyrir krabbameinsveika og aðstandendur þeirra. Mér finnst þessi staður ekki alveg fá það hrós og athygli sem hann á skilið. Ég álpaðist þarna inn og VÁ hvað það er gaman að fara þarna. Ég mæli eindregið með því að þið látið þetta berast svo að þessi staður fái þá viðurkenningu sem hann á skilið. Núna var verið að stofna ungliðahóp. Því miður þá erum við orðin ansi mörg af yngri kynslóðinni og ákvað því Erna í Ljósinu að stofna grúbbu sem hittist einu sinni í viku til að gera eitthvað skemmtilegt saman. Við erum ekki þarna til að ræða krabbameinin.... Við gerum alveg nóg af því  í okkar daglega lífi, við erum að koma saman til að gera skemmtilega hluti saman. Núna erum við ungliðarnir að hittast á fimmtudögum kl 12:30 en sá tími gæti breyst og er því best að hringja í Ernu í Ljósinu ef einhver hefur áhuga á að koma. Endilega ef þið vitið um einhverja krabbameinsveika segið viðkomandi frá Ljósinu því þarna er svo gott að koma og viðkomandi hefur engu að tapa. Þarna er fólk á öllum aldri og af báðum kynjum og ýmislegt í boði alla virka daga.

Við vorum að koma með nokkrar hugmyndir um hvað hægt væri að gera í þessum ungliðahóp:

* Kaffihúsferðir

* Dans.

* Leikræn tjáning.

* Leirlist með börnunum okkar.

* Sjálfheilun.

* Stafaganga.

* Fá listmeðferðarfræðing til að koma eða einhverja aðra fyrirlestra.

 

Endilega hjálpið mér að láta þetta berast því það er svo vont að vera einn með sjálfum sér þegar maður er með krabbamein sama á hvaða aldri maður er. Stuðningurinn þarna er alveg ótrúlegur og Erna er algjör perla. Kíkið endilega á linkinn:

 http://ljosid.org/

15.11.2006 17:29

Ástu væl :)

Ég vaknaði með velgju í maganum í morgunn. Sem betur fer lagaðist það og ég gat því mætt hjá henni Matthildi homopata. VÁ þessi kona er frábær og ekkert smá gott að tala við hana .... mæli alveg 100% með henni. Hún er með svona tæki sem segir hvað hver og einn þolir og þolir ekki. Hjá mér er margt sem ég þarf að forðast og mun ég reyna að fylgja því.

Á morgunn er þessi litla aðgerð sem ég þarf að fara í. Það er gert lítið gat á kviðvegginn svo hægt sé að kíkja þarna niður. Þetta er gert í staðdeyfingu og svei mér þá ég er bara ekkert stressuð. Páll Möller var svo viss um að þetta væri ekki krabbamein og vissan hans smitaðist yfir á mig og ég er bara mjög róleg yfir þessu öllu saman sem betur fer.

Í gær byrjaði ég á hugleiðslu námskeiðinu og ég dró Didda með .. hehehe... við verðum örugglega þvílíkir meistarar í hugleiðslu eftir einhvern tíma .... Hlakka ekkert smá til því það er svo vont að vera með hugann út um allt og vera veikur. Það er eins og hann stoppi aldrei og rosa margar mis góðar hugsanir sækja á. Hugurinn er einn af lykilatriðunum þegar maður er að reyna að læknast og ég virkilega trúi því að hugurinn sé miklu máttugri en við höldum.

Það er svo skrítið að þessa dagana er ég mjög jákvæð út í lífið. Ég er svo viss um að læknast þó læknavísindin segi annað. Það eru alltaf til undantekningar á öllu og ég er búin að heyra um marga sem hafa verið á lokastigi krabbameins með meinvörp og alles og hafa læknast. Konan sem er með mig í hugleiðslunni er eitt af þessum kraftaverkum. Hún fékk eitlakrabba og var komin með meinvörp um allan hrygg og hryggjarliði. Hún var á algjöru lokastigi þessa sjúkdóms en hafði betur. Í dag hefur hún verið án krabbameins í  ca 18 ár. Hún breytti um mataræði, fór að stunda hugleiðslu ásamt mörgu öðru samhliða lyfjameðferðinni. Hún átti ekki að geta snúið blaðinu við en hún gat það og ég veit að ég get það líka. Ég veit að ég get það og ég ætla mér það !!

Þessi mikli lífsvilji minn er farin að hafa jákvæðar breytingar á mér. Það er ekki langt síðan ég gat ekki gert plön. Mér var algjörlega um megn að festa eitthvað niður. Núna get ég það. Ég er búin að ákveða að fara til Svíþjóðar í janúar með krakkana. Ég á bara eftir að fá að vita hvenær Halla krabbameinslæknir leyfir mér að fara svo ég geti pantað farið. Ég ætla að fara og ég veit að við förum. Þetta hefði ég ekki geta gert fyrir stuttu án gríns.

Minn fallegi og yndislegi afi verður jarðaður á mánudaginn. Kistulagningin verður á föstudag og úfff mér kvíður pínu fyrir. Ég er svo þakklát að ég skyldi hafa farið til hans á föstudagskvöldið sl.... Ég náði að halda í höndina á honum, strjúka honum og tala örlítið við hann. Ég treysti mér ekki til að fara upp á spítala eftir að hann dó til að kveðja hann og ég lít svo á að ég hafi gert það þetta kvöld og ég er ekkert smá þakklát fyrir að hafa fengið þann tíma með honum. Ég og afi vorum aldrei þannig lagað náin en eftir að ég veiktist og hann fór að kíkja á mig upp á deild þegar hann lá á deildinni fyrir neðan mig kynntist ég honum eiginlega upp á nýtt. Hann fór að útskýra fyrir mér veikindin og ég var svo kvíðin eitt kvöldið því ég átti að fara í aðgerð daginn eftir til að fá lyfjabrunn og hann sagði mér að hafa ekki áhyggjur og sýndi mér brunninn sinn. Þarna gat hann miðlað sinni reynslu til mín og ég verð ævinlega þakklát fyrir það.

Þótt að krabbamein sé mjög alvarleg veikindi og ég tala nú ekki um þegar meinvörpin eru farin að láta á sér bera ... þá er samt svo margt jákvætt sem þessi veikindi hafa gefið mér. Það er ekki bara alslæmt að fá krabbamein og ég virkilega meina það. Ég veit að margir eiga eftir að hugsa... "vá nú er hún alveg að tapa sér kerlingin"... en þetta er satt. Það er svo margt jákvætt sem þetta hefur leitt af sér og ég er mun þakklátari fyrir hvern dag sem ég lifi.

14.11.2006 16:38

Dagurinn í dag

Eftir fréttirnar af afa mínum í gær var ég pínu lítil í mér. Hödd systir kom til mín og  við ákváðum að gera bara eitthvað skemmtilegt til að létta lundina. Saman drógum við Guðný frænku á Vegamót að borða og þaðan í bíó. Það var ekkert smá gott að komast aðeins út .... ég reyndar gerði eitt af mér ..... ég féll í mjólkurbanninu... BIG TIME .  Í dag líður mér eins og alka sem hafi verið að falla... hehheeh....  . Ég ætla samt ekki að brjóta mig niður fyrir þetta .. ég var búin að standa mig svo vel og ég get alveg gert það aftur.

Á eftir er ég að byrja á hugleiðslu námskeiði. Hlakka ekkert smá til.... Ég ætla mér að ná að öðlast innri frið. Held að það geti gefið mér mikið í mínum veikindum. Á morgunn er ég svo að fara hitta hana Matthildi homopata. Rosa forvitin að vita hvað hún segir við mig. Leyfi ykkur að fylgjast með. Eins og þið kannski sjáið þá er ég með alla anga úti og er til í að reyna margt til að fá lengra líf ... helst lífið mitt alveg tilbaka.

Afi verður kistulagður á föstudag og jarðaður á mánudag. Kvíður pínu fyrir ... kannski ekkert skrítið. Hann er loksins búinn að fá friðinn og laus frá þessu erfiða lífi sem hann átti. Þið segið að ég sé hetja ... þið ættuð bara að vita hvað hann gekk í gegnum og alltaf stóð hann upp blessaður.

 

13.11.2006 13:36

Sorg í Ástu hjarta

Í dag lést afi minn eftir erfiða baráttu við krabbamein..... Úfff ég er með rosa stóran hnút í maganum og í fyrsta sinn í marga daga þurfti ég að taka kvíðastillandi . ...Mér finnst svo erfitt að hugsa til þess að ég fékk sama krabbann og afi. Krabbinn byrjaði hjá honum í ristlinum, fór þaðan í nokkra eitla í kviðarholinu og þaðan í lifrina (eins og hjá mér), og endaði svo í lungunum . Ég veit alveg að ég á ekki að bera okkur saman því hann var orðinn gamall maður og ég er bara 30 ára og það var hans ákvörðun að hætta allri lyfjameðferð .. en þetta er samt svo erfitt !! Auðvitað kemst ég ekki hjá því að hugsa til þess þótt ég reyni að gera það ekki.

Æji í dag er Ástu hjarta lítið. Ég veit að ég verð að halda minni bjartsýni áfram og trúa því að ég komist yfir þetta. Trúa því að ég muni læknast þrátt fyrir öll mótlætin sem ég er búin að finna fyrir upp á síðkastið. Ég bara verð og ég má ekki gefast upp !!  Það er bara svo erfitt að halda andlitinu þegar alltaf gerist eitthvað sem að dregur mann niður. Ég hugga mig samt við það að afi var orðinn sáttur við sitt og það var fyrir bestu að hann fengi að fara fyrst veikindinn voru orðinn svona mikil. Samt skrýtið að hugsa til þess að mér finnst svo stutt síðan að við láum bæði á sama spítalanum reyndar ekki á sömu deild og hann var alltaf að trítla upp til mín á kvöldin til að bjóða mér góða nótt. Þá var það ég sem var svo lasinn en hann í hvíldarinnlögn og var nokkuð hress. Datt ekki í hug að við fengjum svona stuttan tíma....

 

12.11.2006 13:28

Leiðrétting :)

Það er önnur stelpa sem heitir Ásta Lovísa eins og ég og hún hefur verið að fá fullt af mailum sem hafa verið ættluð mér.

Ég er með mailið astalovisav@hotmail.com en hún astalovisa@hotmail.com..... Mitt mail er með v í endanum en ekki hennar. Hún hefur verið á fullu að forwarda mailunum til mín ... heheheh... spurning hvort hún fari ekki bráðum að heimta ritaralaun fyrir alla vinnuna . Allavega þá er ég búin að koma þessu á framfæri.

Er ennþá nokkuð hress þrátt fyrir lyfin. Smá þreyta en ekkert alvarlegt allavega ennþá. Vonandi held ég bara áfram á þessum nótum.

Ég er endalaust að fá færðar hinar og þessar gjafir og ég vil enn og aftur þakka fyrir mig .

Kv Ásta

11.11.2006 13:21

Smá meira info

Ég gleymdi að segja eitt í síðustu bloggfærslu ... læt þetta því flakka hér .

Í gær fékk Halla krabbameinslæknirinn minn tvo skurðlækna til að kíkja á þessa hnúta í skurðinum mínum. Annar þeirra þekki ég orðið vel því það var hann sem skar mig upp þegar ristillinn og eitlarnir voru teknir og líka þegar ég fékk lífhimnubólguna í kviðarholið. Hann heitir Páll Möller og er alveg yndislegur maður. Þegar ég var skorinn þá var ég skorinn frá lífbeininu og alveg upp undir rifbeininn. Af því skurðurinn er svo stór þá þurfti að sauma ofan frá og niður að miðju og neðan frá og upp að miðju. Þar sem saumarnir mætast eru þeir svo bundnir saman í stórann hnút. Það er misjafnt hversu fljótt líkaminn nær að eyða þessum hnútum og hann sagðist vera 99% viss um að þetta væru saumarnir en ekki krabbamein sem að væri að koma sér fyrir á þessum stað ... hjúkket ... !!! En hann sagðist vera farinn að þekkja mig það vel að hann vissi að ég myndi ekki sætta mig við neitt minna en 100% og ætlar því að gera smá aðgerð á næsta fimmtudag til að vera alveg 100% viss fyrir mig. Þannig að þetta verður gert í staðdeyfingu og skorið verður lítið gat á kviðinn til að geta kíkt þarna niður. Honum tókst með þessum orðum að létta þvílíku fargi af áhyggjum af mér.

Krakkarnir mínir dvelja nú hjá pöbbum sínum um helgina þannig að ég hef getað hvílt mig og svaf því vel út í morgunn. Þarf svo að fara upp á spítala á eftir til að láta taka viðhaldið mitt af mér .... þ.e.a.s fröken lyfjadælu . Er búin að vera með hana á maganum síðustu 3 daga og fæ ég því pásu núna í 1 og 1/2 viku. Það er fínt því það er svo erfitt að komast ekki í bað né sturtu þessa 3 daga og belive me það er sko ekki gaman . En hvað gerir maður ekki fyrir lyfin... sem eru jú þau sem eru að reyna að vinna bug á þessum veikindum mínum. Þannig að passið ykkur bara á að kíkja ekki í heimsókn til fröken Ástu þessa dæludaga því hún gæti stínkað feitt .

Jæja nóg með rausið í mér í bili !!!

Hafið það gott um helgina

Kv Ásta Lovísa.

 

11.11.2006 01:01

Svar til ykkar allra :)

Ég vil byrja á því að þakka öllum fyrir kveðjurnar sem ég hef fengið. Skilaboðin mín eru full af skilaboðum og ég hef ekki undan að lesa þetta allt og svara. Vona að enginn móðgist að fá ekki svar. Ef einhver þarf nauðsynlega að ná í mig endilega senda þá aftur með fyrirsögnina nauðsynlegt..... verð eiginelga að gera þetta svona ef fólk vill fá svar strax.

Ég er svei mér þá orðlaus yfir viðtökunum sem umfjöllun mín hefur fengið . Enn og aftur takk fyrir það !!!

Ég hef mikið verið spurð að því hvaða ristilsjúkdóm ég var með sem leiddi til krabbans. Ég var með Colitis Ulcerosa eða sáraristill á íslensku. Ákvað að skella þessu hér inn í staðinn fyrir að svara öllum sem hafa spurt.

Sambandi við lyfjameðferðina í dag þá er ég bara voða hress. Ekkert verið þreytt eða slöpp bara aðeins fundið fyrir velgju við og við en sem betur fer er maður með lyf sem slær á það fljótlega eftir inntöku . Eftir lyfjameðferðina skellti ég mér meira að segja í Kringluna, á kaffihús, í heimsókn og loks í bíó á myndina Borat. Mæli hiklaust með henni ef þið viljið pissa í ykkur af hlátri .

Ætla að hafa þetta stutt núna ... Takk öll fyrir að vera svona yndisleg !!

 

Flettingar í dag: 1086
Gestir í dag: 284
Flettingar í gær: 326
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 110870
Samtals gestir: 21081
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 23:57:26

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir

Afmælisdagur:

9. ágúst 1976

Um:

~ Söfnun ~ 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469

Tenglar