Færslur: 2006 September

28.09.2006 17:02

Ohhhh .... PIRR PIRR

Það hlaut að koma að þessu!!

 Upp úr hádegi byrjaði ég að finna meira fyrir aukaverkununum. Hausinn á mér er að springa, er með beinverki og ógleði. Ohhh ég sem var búin að vera svo hress og hélt virkilega að ég myndi sleppa.... en það var víst of gott til að vera satt   Eftir hádegi hef ég því legið í sófanum og sofið í mest allan dag. Vonandi stoppar þetta bara stutt yfir .... annars verð ég bara að gerast sófaklessa áfram fram yfir helgi. Vonandi að ég festi bara ekki rætur þar

Þið sem hafið hringt í mig í dag og ég verið frekar stutt orð ... SORRY .... mér er bara ekki búið að líða neitt vel þannig að ekki taka þetta neitt persónulega  Verð pottþétt hressari eftir helgi og lofa að þá verður skemmtilegra að tala við mig .

Ætla að hafa þetta stutt núna enda ekki alveg í miklu blogg stuði þegar líkaminn gargar svona á mann.

Tjá amigos

27.09.2006 16:44

Fyrsta vikan búin ... JÚHÚ !!!

Þá er fyrsta vikan mín í lyfjameðferðinni búin..... hæ hó jibbí jei 

Ég er ennþá frekar hress fyrir utan ofvirknis skrattann þannig að ég var bara sjálf á bíl í dag og sótti hana Önnu mína og við vorum rúntandi út um allt, skelltum okkur í Kringluna og alles.   Komum við síðan upp á spítala og dælan var tekin þannig að ég þarf ekki að sofa með hana aftur í nótt og fæ rúma viku pásu frá nýju vinkonu minni henni fröken dælu. Ég er harðákveðin í því að verða ekkert lasin næstu daga og vonandi bara gengur það eftir ... hehehehe.... aldrei að vita nema ég verði bara krúsandi um götur Reykjavíkur um helgina..... þannig að varið ykkur á ofvirku konunni á bláu hættunni  

Ég tók eftir því í gær hversu mikið veikindi mín taka á litlu krúslurnar mínar. Ég áttaði mig eiginlega ekki á því hversu mikið þau taka þetta inn á sig fyrr en í gær   Ég mátti ekki hósta, hnerra eða heyrast boffs í mér þá var Kristófer minn og Emblan mín komin hlaupandi að athuga hvort það væri allt í lagi með mömmuna sína. Æji greyið litlu skinnin að passa upp á múttuna sína ...* sniff*.... *sniff* ... þetta á eiginlega að vera öfugt.  En ég verð bara að vera dugleg að tala við þau og útskýra og númer 1.2 og 3 að sýna þeim hlýju.  Þau hljóta að venjast þessum aðstæðum þegar lengra líður.

Eitt sem ég þarf að segja við ykkur snúllurnar mínar sem ég gleymdi að taka fram áður. Ef þið eruð eitthvað kvefuð, nýbúin að vera lasin eða einhver flensu skítur í ykkur þá verð ég að biðja ykkur um að boða ykkur ekki í heimsókn til mín. Ég þarf víst að forðast alla sem eru veikir eða nýbúnir að vera það sem geta borið eitthvað til mín, alla óþarfa kossa (sumir sleppa samt ekki svo auðveldlega ... taki það til sín sem eiga) og brýna fyrir fólki með handþvotta. Ónæmiskerfið mitt verður víst frekar óvirkt á þessum lyfjum, plús það að rauðu og hvítu blóðkornin geta fallið mjög niður þannig að ef ég veikist þá bíður mín líklegast spítalavist.... þannig að elskurnar mínar endilega spáið í það áður en þið biðjið um að fá að koma til mín.

Kiss og knús frá mér

26.09.2006 18:22

Þriðjudagur til þrautar :)

Þá er dagur tvö í lyfjameðferðinni liðinn

Dagurinn hefur bara gengið vel nema að ég vaknaði eiturhress kl 5 í morgunn og er búin að vera ofvirk með eindæmum síðan án gríns af sterunum ... hahahahahha ..... ég get ekki setið kyrr, er trommandi með höndunum, stappandi með fótunum, nagandi hluti, endalaust að opna ísskápinn minn (ég meina það gæti eitthvað meira spennandi verið kominn inn í hann næst... hahahah...) er með munnræpu dauðans og talandi á high speed   Ég get allavega sagt að ég sé búin að fá að upplifa hvernig það er að vera ofvirk. Það er bara eins og ég sé bremsulaus bíll. Ég var að spá í að fá mér ofvirknislyfin hans sonar míns í morgunn ... NOT . Allavega tekst mér pínu að þreyta fólk í kringum mig með þessari skrítnu hegðun minni en hey ég knúsa ykkur bara í klessu í staðinn fyrir að umbera mig svona. Sérstaklega mamma og Diddi minn þið eigið inni hjá mér HEAVY knús fyrir að umbera mig mest og ekki gleyma að innheimta það  

Ég er ennþá nokkuð hress núna, sumar aukaverkanirnar aðeins farnar að segja til sín en ekkert alvarlega enn sem komið er fyrir utan ofvirknina enda algengast að þær komi eftir á, þannig að á fimmtudag, föstudag og um helgina get ég farið að verða lasin en þetta er víst rosalega persónubundið þannig að  þetta verður bara allt að koma í ljós .

Allavega krúslurnar mínar þá hef ég það fínt og ég þakka fyrir öll fallegu kommentin frá ykkur mér hlýnar alveg um hjartarætur og gaman að sjá hvað margir eru að hugsa til mín og endilega haldið þessu áfram. LUV U ALL !!!!

 

 

25.09.2006 18:35

Lyfjameðferð dagur 1

Dagurinn sem ég er búin að vera að kvíða heavy mikið fyrir rann upp í dag!!!

Ég tók daginn snemma og kom grísunum mínum í skólann. Eftir það fékk ég mér morgunmat og var síðan sótt af Höddinni minni. Lögðum svo af stað niður á LSP og alvaran byrjaði. Nál var komin fyrir í lyfjabrunninum mínum og byrjað var að dæla í mig stera og vítamínsýru. Eftir það lentum við að bíða heillengi eftir krabbameinslyfjunum sjálfum því að apótekið hafði víst ekki undan að blanda krabbameinslyf fyrir allt fólkið þarna á deildinni .... og já það er sko mikið af krabbameinsveikufólki á Íslandi í dag því miður  

Lyfin komu svo og þau voru dæld inn í lyfjabrunninn minn. Eftir það var ég tengd við dælu og er ég með hana hérna heima og hún dælir lyfjum í mig dag og nótt fram á miðvikudag. Við vorum mættar rétt fyrir kl 9 í morgunn og losnuðum ekki út fyrr en 15:30.

Á morgunn þarf ég svo að fara aftur og sama sagan endurtekur sig nema að ég stoppa ekki eins lengi.

Ég er strax farin að finna aðeins fyrir aukaverkunum. Er orðin föl, pínu máttlaus og pínu flökurt og skynja hita og kulda á pínu sársaukafullan hátt. Það var búið að vara mig við því en ég gleymdi mér augnablik. Ég þurfti að taka ógleðislyf og tók kaldan drykk úr ísskápnum og drakk hann með ógleðis töflunni og VÁ ég fékk köfnunartilfinningu dauðans (maður upplifir eins og kokið lokist) og fékk brunatilfinningu í varirnar og fingurnar við það eitt að drekka úr og halda á kaldri flöskunni. Það var búið að segja við mig að ég þyrfti kannski að nota vettlinga þegar ég tæki eitthvað úr ísskápnum og ég yrði að drekka drykki við stofuhita ... hahhahahaha pínu fyndið en hey það er ágætt að sjá björtu hliðarnar í þessu öllu saman .....  en fyrst að þessi tilfinning er komin á fyrsta degi þá veit ég að ég kem til með að þurfa að nota vettlinga til að fara í ísskápinn og klæða mig extra vel þegar ég fer út en það er bara kúl er það ekki ????

Mig langar til að biðja ykkur um tvennt. Ég hef pínu verið að upplifa það í kringum mig að fólk verði pirrað ef ég læt ekki vita af mér einn, tveir og tíu. Ég vil að þið áttið ykkur á því að ég var að greinast með krabbamein fyrir stuttu, er með börn og er í lyfjameðferð þannig að stundum þarf ég bara að fá að vera út af fyrir mig og mig langar ekki að fá sky high símareikning. Þið hafið líka síma og getið hringt eða sent sms til að athuga með mig eða bara lesið bloggið mitt því ég kem til með að reyna að uppfæra það eins hratt og ég get.

Einnig langar mig að biðja ykkur um að spá aðeins í því hvernig ástandi þið eruð í þegar þið talið við mig eða þegar þið talið við annað fólk út í bæ um mig. Hef stundum lent í því að mér líður ekki vel eftir að hafa talað við fólk og ég jafnvel lent í því að þurfa að hugga fólk út af mínum veikindum og það er eitthvað sem ég á ekki að þurfa að standa í akkúrat núna því ég hef alveg nóg með að halda mínum tárum í skefjum.  Það er ég sem er veik og ég þarf að forðast kringumstæður sem draga mig niður og einnig finnst mér mjög sárt þegar ég er að heyra sögur um mig út í bæ þar sem veikindin mín hafa verið krydduð með stóra kryddinu og ég bara komin með annan fótinn í gröfina eða jafnvel komin ofan í hana. Spáið í því að fólk hefur tilfinningar og við búum á litla Íslandi og hlutir eru fljótir að berast.

23.09.2006 18:45

Laugardagur til lukku

Í gær fór ég í þessa kynningu á krabbameinsdeildina og þá er bara lyfjameðferðin næst á dagskrá. Mér fannst pínu erfitt og skrítið að fara þarna. Fullt af krabbameinsveiku fólki á öllum aldri. Sem betur fer (ég veit að það er ljótt að segja þetta), þá var þarna lang mest af eldra fólki. Það er þó allavega búið að fá að lifa lengi og sjá börnin sín vaxa úr grasi og jafnvel eignast barnabörn. Mér fannst pínu erfitt að sjá hvað sum þeirra horfðu á mig og maður fann hvað þau hugsuðu ...... hugsuðu um það hvað ég væri ung og að ég væri stödd þarna á þessari deild.  Það var ein gömul kona sem mér fannst pínu krúttileg hún var alltaf að horfa á mig og senda mér svona fallegt pepp bros. Alltaf þegar ég leit upp í áttina til hennar horfði hún til mín og sendi mér krúttilegt bros og fallega strauma með augunum. Æji ég gat ekki annað en brosað tilbaka

Dagurinn í dag er búin að vera góður dagur. Ég er líka búin að vera með Írenu mína um helgina og vá hvað ég var farin að sakna hennar. Mamma kom hérna í gærkvöldi til að hjálpa Ástunni sinni og færði okkur frábæran kvöldmat og  var hérna hjá okkur í nótt. Í dag skelltum við okkur í verslunarferð í Bónus. Þó það sé ekkert voða spennó að versla í matinn þá var það samt pínu skemmtilegt því það er svo langt síðan ég hef farið í þannig ferð. Seinna um daginn kom hann Diddi minn með snúlluna sína og við vorum að föndra með krakkana og ég skellti í vöfflur handa liðinu. Núna er hún Helga mín að ná í pizzu handa okkur og ætlar að kúra hér hjá okkur í nótt mér til stuðnings. Ekkert smá heppin að eiga svona góða að

Á morgunn er sunnudagur. Pabbi ætlar að koma og elda handa mér lambalæri .... jummí !!!! Alltaf verið að dekra við mann þessa dagana.... þessar elskur. Eini kosturinn við þessi veikindi mín er hvað allir eru tilbúnir að dekra við mann ... hahahha.... passið ykkur bara að gera mig ekki of háða því .... því það verður kannski ekki svo auðvelt fyrir ykkur að losa ykkur undan því aftur og þið sitið uppi með mig þar til ég er orðin grá og gugginn .... ójá ég ætla mér að lifa það lengi !!!!

 

 

 

21.09.2006 13:57

Fimmtudagur

Jæja þá er komin fimmtudagur og aðeins 4 dagar í lyfjameðferðina

 Mín elskulega systir ætlar að koma með mér til að styðja mig þennan dag og svei mér þá ef það hefur ekki aðeins dregið úr kvíðanum mínum. Ég spáði bara ekki í það fyrr að það gæti hjálpað að hafa einhvern hjá manni sem maður þykir vænt um til stuðnings.

Ég er á fullu að koma mér í tengingu við fólk sem er að ganga í gegnum það sama og ég. Mér finnst ég verða að gera það því það er enginn sem skilur mann eins vel og þau. Í  gær fékk ég símtal frá stelpu sem er á svipuðum aldri og ég og er í lyfjameðferð sjálf vegna krabba. Ég var reyndar ekki við þegar hún hringdi og ætlar hún að hafa samband aftur við mig í dag og ég er bara þvílíkt spennt að heyra í henni.

Ég fékk svo líka símtal áðan frá fyrrverandi kennaranum mínum og skólastjóra sem fékk sama krabba og ég og hún er alveg við að klára sína lyfjameðferð og við spjölluðum lengi saman. Ég finn bara hvað það gefur mér mikið að fá smá leiðbeiningar og pepp frá þessu fólki. Sérstaklega þegar það er svo mikill daga munur á manni hvernig maður er að höndla þetta og þá er svo gott að geta haft samband við þær. Einnig veit ég um aðra stelpu á mínum aldri sem ég var stundum að leika við sem barn sem er búin að ganga í gegnum allan þennan pakka og mig langar að hafa samband við hana en er ekki alveg að þora því.... en hey ég mun gera það samt við tækifæri

Á morgunn á ég að mæta á krabbameinsdeildina í undirbúning og kynningu og þá fær maður að sjá hvernig þetta allt virkar. Þetta er víst einhver dæla sem að er plögguð við mig og ég þarf að taka með heim því hún dælir í mig allan daginn og nóttina. Þannig verður þetta tvo daga og þriðja daginn er dælan tekin og ég fæ frí í rúma viku til að jafna mig og þá byrjar ballið allt aftur. En ég hugga mig samt við það að ég mun ekki missa hárið á þessum lyfjum og mér finnst það FRÁBÆRT. Hárið er jú mjög oft stolt kvennfólksins sérstaklega þegar maður kemur nú úr þvílíkri rakaraætt eins og ég geri  ...... Fjölskyldan mín verður nú að hafa eitthvað til að klippa HA HA HA HA.

Jæja ég nenni ekki að steypa í ykkur meira í bili krúslurnar mínar þannig að ég læt þetta duga í bili.

Knússssssssss

 

18.09.2006 12:45

Fallega snúllan mín á afmæli í dag

Hún Emblan mín er 8 ára í dag....... JÚHÚ!!!

Ég er ennþá með móral yfir því að hafa ekki verið til staðar um daginn þegar Írena Rut lillan mín átti  3 ára afmæli en þá var ég hundveik á spítala þannig að ég ætla að hafa nánustu ættingja hér í kvöld í svona "lítið kaffiboð" fyrir þær báðar. Ég hef bara ekki krafta í að hafa þetta eitthvað stærra og ég vona að mér verði fyrirgefið það

Ég kom heim af spítalanum seinni partinn á fimmtudag með því lauk 5 vikna dvöl minni á gamla Landsanum og viku dvöl minni á gamla Borgó. Vá heilar 6 vikur í vernduðu umhverfi spítalanna. Það var rosa gott að koma heim en ég verð að viðurkenna það að mér fannst ég hálf ókunnug hérna heima eftir allan þennan tíma og fannst ég pínu berskjölduð og Palli er einn í heiminum... ein án verndaða umhverfisins sem ég hafði upplifað síðustu vikurnar.

Á mánudaginn næsta byrjar svo lyfjameðferðin...... ÚFFFF ég fæ sting í hjartað með hverjum deginum sem líður og styttist í þessa dagsetningu. Ég veit að ég á að líta á þetta sem lækningu og leið til að bjarga lífi mínu en því miður þá er ég ekki komin ennþá með það æðruleysi því ég hræðist þessa öflugu og sterku lyfjameðferð. Ég hræðist að verða það veik á henni að ég eigi ekki eftir að geta gert neitt næsta hálfa árið sem hún tekur. Hræðist að þeir sem eru mér næstir höndli þetta kannski ekki og hverfi.  Ég veit að þetta er leiðin til að halda mér á lífi en þetta er samt eitthvað nýtt og óþekkt fyrir mér og maður hefur heyrt svo margar sögur af fólki sem hafa lifað HELL tíma á meðan að þessu stóð en aðeins hef ég heyrt eina sögu þess að manneskja höndlaði þetta vel.

Ein sagði við mig um daginn að ég ætti að líta á krabbann sem vin minn sem ég þurfi að búa með um tíma. Hvernig er hægt að hugsa þannig án gríns ??? Hvernig er hægt að hugsa um eitthvað sem er að reyna að taka líf manns sem vin ??? Vá hvað ég væri til í að hafa þetta hugarfar hjá mér. Kannski einn daginn en það er allavega ekki til staðar í dag.. því miður. Kannski er ég ennþá í sorgarferlinu það má vel vera og að hugarfarið eigi eftir að verða jákvæðara þegar á líður. Allavega vona ég að guð gefi mér það að svo sé því jákvæðar hugsanir vissulega hjálpa.

Ég þoli ekki þegar fólk er að segja mér hvernig hlutirnir eiga að vera í þessari baráttu. Hvernig getur fólk sagt manni hvernig manni eigi að líða og hugsa og það hefur aldrei upplifað þetta sjálft??? Upplifað þá tilfinningu að eiga kannski ekki langt líf fyrir höndum og kannski að fá ekki að sjá börnin sín vaxa úr grasi. Ég veit alveg að ég á góða möguleika en ég er samt bara lítil og hrædd. Ekki segja mér hvernig mér á að líða eða hugsa.... verið frekar til staðar og knúsið mig þegar ég þarf á því að halda. Ég þarf tíma og svigrúm til að melta þetta frá öllum hliðum hvort sem það séu góðu hliðarnar eða þær slæmu.

13.09.2006 11:30

Long time no see !!!

Það er orðið ansi langt síðan að þetta blogg var opið en ég ákvað að opna það að nýju. Ástæðan er sú að ég er búin að ganga í gegnum HELL tíma síðustu mánuði og ég er að vona að með því að skrifa um hlutina og það sem fram undan er hjálpi það mér.

Fyrir ykkur sem ekki eru að skilja bullið í mér þá lenti ég á spítala 29. júlí sl og fékk síðan þær hræðilegu fréttir 4. ágúst að ég væri með krabbamein. Síðan þá er ég búin að ganga í gegnum skurðaðgerðir og núna bíður mín lyfjameðferð sem byrjar á næstunni. Ég verð að viðurkenna það að mér kvíður svakalega fyrir lyfjameðferðinni. Í raun miklu meira en skurðaðgerðunum. Maður er bara búin að heyra svo oft um það að fólk sé fárveikt af þessum lyfjum og mér finnst ekkert hljóma voða vel að vera fárveik í hálft ár. En þrátt fyrir hræðsluna þá verð ég að sætta mig við það því lífið er miklu meira virði en einhverjir veikir mánuðir. Enda á ég margt til að lifa fyrir eins og þrjú yndisleg börn, góða fjölskyldu og vini og auðvitað hann Didda minn.

Í fyrsta skipti síðan ég varð mamma er ég búin að vera án barnanna minna síðan ég veiktist og ég hef aldrei verið án þeirra svona lengi og ég get ekki beðið eftir að fá litlu hávaða belgina mína aftur hehehe og það verður um leið og heilsan mín leyfir. Það er svo fyndið þegar maður er með þau og kemst kannski ekki eitthvað sem manni langar svo að komast þá verður maður svo pirraður eða þegar þau eru erfið hvað maður getur getur pirrast en vá hvað þessi veikindatími minn er búinn að kenna mér hvað ég sjálf er háð þeim og hversu rosalega ég sakna þeirra allra. Æji vá ég held að ég láti þetta duga í bili áður en ég fer að skæla HA HA HA HA. Tjá tjá

  • 1
Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 326
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 109914
Samtals gestir: 20853
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 03:00:04

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir

Afmælisdagur:

9. ágúst 1976

Um:

~ Söfnun ~ 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469

Tenglar