13.12.2006 15:21

Lyfjameðferðin

Var að koma heim eftir lyfjakoktail dagsins. Fékk bara þrjú lyf í dag því ég mátti ekki fá aðal lyfið núna út af aðgerðinni. Fæ Avastínið milli jóla og nýárs. Góð jólagjöf það . Fékk reyndar furðulega auðkaverkun meðan ég var á spítalanum. Tungan á mér dofnaði öll upp og ég talaði eins og ég hefði verið á þvílíku fyllerís tryppi en það er að lagast núna sem betur fer. Ekkert smá óþægilegt.

Ætlaði svo að slappa af þegar ég kæmi heim ... en litli voffinn minn er búin að vera með skitu og búinn að vera að æla síðan í gær þannig að ég verð að fara með hann til dýra doksa. Eins gott að það sé allt í lagi með litla Tumalinginn minn.

Ég verð víst að reyna að taka því rólega þessa vikuna því Halla talaði um að það væri meiri líkur á vanlíðan og ógleði núna því það er svo stutt síðan ég var í aðgerð og líkaminn ekki alveg búinn að jafna sig. Verð að reyna að hlýða því en ég er eitthvað ofvirk þessa dagana enda stutt til jóla og svo margt sem þarf að gera.

Þórdís hetja er ein vinkona mín sem greindist með krabbamein í lungunum 20. október sl. Hún er eins og ég einstæð og er með eina litla 8 ára stelpu. Endilega ef þið getið reynið að styrkja þessa yndislegu konu ...... ég veit manna best hvað hjálpin ykkar hjálpaði mér mikið. Það er alltaf erfitt að vera að berjast fyrir lífi sínu og þurfa að hafa áhyggjur af peningum ofan á allt. Ef þið sjáið ykkur fært endilega hjálpið þessari konu. Síðan hennar og allar upplýsingar um hana eru hér : http://68.simnet.is/ . Munið að margt smátt gerir eitt stórt .

Kv Ásta Lovísa

12.12.2006 17:02

Ýmislegt

Svaf út í morgunn og skellti mér síðan upp á Landsa í blóðprufu sem þarf að vera tilbúin fyrir morgunn daginn. Eftir það skellti ég mér í Ljósið og var þar eftir hádegi. Alltaf jafn gott og gaman að fara þangað .

Núna í Ljósinu stendur yfir sýning í Ráðhúsinu til styrktar Ljósinu sem er endurhæfingar - og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Sölusýningin heitir Ljós í silfri og þar er hægt að kaupa skartgripi til að gefa í jólagjafir og allur hagnaður af sölunni rennur til Ljósins. Sölusýningin stendur yfir frá 9.des. - 20.des. og er opið alla daga frá kl 12.00 - 18.00. Endilega kíkið á þetta og styrkið gott málefni. Auglýsingin er hér:  http://ljosid.org/modules.php?full=1&set_albumName=desember2006&id=ljos_i_silfri_A3_2_001&op=modload&name=gallery&file=index&include=view_photo.php

Á morgunn byrjar svo lyfjameðferðin aftur. Ég er eiginlega farin að hlakka til því það er mjög óþægileg tilfinning að vera ekki á neinum lyfjum. Maður verður svo hræddur um að meinvörpin skjóti sér hér og þar eins og graftarbólur. Aldrei bjóst ég við því að ég yrði svona glöð með að fara í lyfjameðferðina en svei mér þá þá er ég það virkilega. Það var ein sem sendi mér mail og talaði um að ég ætti að prufa þegar ég væri í lyfjameðferðinni að ýminda mér að ég væri í Pacman leik. Sjá fyrir mér Pacman kallinn éta meinvörpin ... heheeh ..... mér finnst þetta pínu skondin hugmynd  .

Fyrst þegar ég veiktist þá hugsaði ég alltaf um krabbameinið sem óvin... blótaði því og talaði mjög neikvætt um það. Það má bara ekki hugsa þannig. Krabbameinið er ekkert annað en mínar frumur sem að klikkuðu og fóru að fjölga sér of mikið. Samt sem áður eru þetta mínar frumur og eru hluti af mér hvort sem þær eru heilbrigðar eða óheilbrigðar. Ef ég ætla að tileinka mér þá hugsun að ég sé að berjast við þennan óvin þá er ég að segja líkamanum mínum að berjast við sjálfan sig og það er  ekkert nema niðurbrot. Ég vil frekar hugsa til lifrarinnar með kærleika og án gríns næstum því tala við hana og segja við hana að við stöndum saman í því að laga það sem hefur klikkað. Sjá fyrir mér heilbrigðu frumurnar vinna í þeim óheilbrigðu með von um lækningu. Þið sem eruð krabbameinsveik reynið að tileinka ykkur þessa hugsun ... ég veit að það er erfitt en annars eruð þið að berjast við ykkur sjálf og það er ekki það sem við viljum.

11.12.2006 11:34

Blogg

Letin alveg að drepa mig í dag var fyrst núna að skríða úr rúminu . Ég hef reyndar löglega afsökun ... var svo mikið um að vera hjá mér í gær og ég því orðin alveg úrvinda. Systir mín og co mættu hérna í hádeginu í gær og við máluðum piparkökur með krökkunum. Mér leið betur eftir að hafa gert það því ég fékk svo mikin móral yfir að hafa ekki treyst mér að mála piparkökur með Írenu á leikskólanum hennar. Þannig að núna get ég andað léttar .  Eftir það eða kl 16 byrjaði svo afmæliskaffið hans Kristófers fyrir þá allra nánustu ættingja. Ég bara hafði ekki krafta í að halda þetta neitt stærra. Það er maður sem kallar sig bakarinn á barnalandi sem að bakaði þvílíkt flotta Arsenal köku handa stráknum og hún hitti ekkert smá í mark hjá drengnum. Mæli 100% með honum og ég held að hann sé með síðuna kaka.is á netinu. Kristófer fær svo að bjóða strákunum í bekknum sínum í keilu í dag ásamt öðrum afmælisstrák í bekknum. Ég og mamma hans ætlum að slá þessu saman og þetta verður án efa skemmtilegt fyrir þá.

Helgin gekk bara vel fyrir sig. Var með öll börnin laugardagsnóttina og mamma var hér líka mér til stuðnings. Er reyndar pínu þreytt og lúin en það bara gerir ekkert til því helgin var þess virði.

Ég er búin að gera samning við guð . Ef hann leyfir mér að lifa og ná heilsu á ný þá ætla ég að vinna í þágu krabbameinsveikra. Ég hef séð hvað þetta blogg mitt hefur vakið gríðarlega athygli og ég hef séð hvað sagan mín hefur hjálpað öðrum. Ég er því alveg ákveðin í því að ef ég fæ heilsu aftur þá mun ég gera allt mitt til að bera minn boðskap áfram og vera til staðar fyrir þá sem þurfa þess. Vonandi að ég fái að standa við þessi orð mín og þennan samning.

Knús á ykkur öll

K Ásta

09.12.2006 19:53

Laugardagur

Ég svaf eins og steinn í morgunn. Var alveg búin á því eftir allt rápið deginum áður. Lærði smá lexíu þar..... Er ennþá stirð og þreytt ... Í hádeginu fór ég í klippingu til mömmu. Varð að stytta það alveg eða það nær niður á kjálkabeinin. Ég hef ekki verið með svona stutt hár síðan ég var barn og mér finnst það pínu sárt að hafa þurft að klippa það svona stutt. Hárið á mér hrynur svo rosalega að það var bara ekkert annað hægt í stöðunni.  Hárið vex aftur þannig að ég verð bara að sætta mig við þetta þangað til.

Eftir klippinguna fór ég á Vegamót með Hödd systir. Fengum okkur gott að borða og áttum góða systra stund. Vegamót er frábær staður ... Hann er svo ódýr og maturinn þarna er frábær og þjónustan til fyrirmyndar. Held að þetta sé með þeim ódýrustu stöðum sem við eigum hér á höfuðborgarsvæðinu. Mæli 100% með honum. Eftir það fór ég heim og lagði mig smá til að safna kröftum áður en börnin komu. Núna eru öll börnin mín hjá mér og ætla að vera hérna í nótt. Mamma ætlar að vera hérna líka og ætlum að hafa það kósý hérna inni í vonda veðrinu .

Á morgunn ætla ég að mála piparkökur með krökkunum og eftir það verður smá afmælisboð fyrir nánustu ættingja mína.  Allt að gerast hjá Ástunni núna og mér finnst fínt að hafa nóg fyrir stafni..... Minni líkur á að kvíðaköstin banki upp á .

Knús á ykkur öll og takk fyrir öll fallegu kommentin .

Kv Ásta Lovísa

08.12.2006 22:07

Ásta skakka :Þ

Þið sem hafið verið að hafa áhyggjur af mér eftir skrif mín í gær ... þá vil ég bara segja að ég er miklu brattari og líður mun betur í dag. Ég hóf daginn snemma og skellti mér aftur á ráp með henni Sirrý minni. Viti menn ég er næstum því búin að kaupa allar jólagjafir og þessar 6 afmælisgjafir sem ég þurfti að kaupa. Ekkert smá glöð með það. Ég gekk samt aðeins of langt í dag .... var í rápi í allan dag og núna er ég svo stíf í líkamanum að ég get ekki verið bein ... heheheh .... er Ásta skakka í kvöld .

Í gær var ég lítil og í dag ætla ég að vera stór. Ég veit alveg að svona dagar koma og munu halda áfram að koma og það er svo gott að geta fengið útrás hér. Margir segja við mig að ef þeir vilja vita hvernig mér líður þá sé það best að lesa bloggið mitt því ég segi alltaf að ég hafi það fínt þó svo mér líði ekki þannig. Það er alveg rétt það er bara eitthvað við þetta blogg sem fær mig til að opna mig og segja nákvæmlega hvernig mér líður hverju sinni. Kannski af því tölvan er dauður hlutur sem ekki talar tilbaka eða eitthvað og hún dæmir ekki það sem ég segi. Ég veit hreinlega ekki alveg hvað það er sem fær mig til að opna mig alveg að innstu hjartarótum. Ég held að ef ég hefði ekki þetta blogg þá væri ég með ennþá stærri hnút í maganum sem væri þar fastur.

Snúllinn minn er 11 ára í dag. VÁ hvað ég er stolt af þessum fallega og ljúfa dreng. Hann er búinn að vera alveg ótrúlegur í mínum veikindum og hefur þurft að vera svo stór og bjarga sér svo mikið sjálfur. Ég sé það á bæði Emblu og Kristófer hvað veikindin mín hafa þroskað þau hratt og mikið. Börnin mín öll þrjú eru sannar hetjur og hafa verið svo dugleg í þessu öllu saman og sem betur fer eiga þau góða pabba sem geta stutt við bakið á þeim líka í gegnum þetta allt.

Hafið það gott um helgina og í alvöru mér líður vel og ætla líka að eiga góða helgi.

Kiss og knús

Kv Ásta Lovísa

07.12.2006 21:33

Smá bögg

Hvað er málið með mig og tónlist ??? Ég hef alltaf verið svo mikil tónlistarkelling þá aðallega í vælu lögunum ... en núna eftir að ég veiktist þá virðist ég ekki geta hlustað á lögin mín án þess að ég fái kvíðakast... Æji þetta er svo vont því allar særandi hugsanir sækja þá svo á. Ég skrapp út með vinkonu minni núna í kvöld og kom svo heim, kveikti á tónlist og lét renna í bað og bara BAMM! Allt í einu sat ég skælandi eins og lítið barn sem vantaði knús. Afhverju get ég ekki hlustað á tónlist án þess að óæskilegar hugsanir banki upp á ???? Hugsanir eins og ... kannski séu þetta mín síðustu jól sem ég fæ að eiga með börnunum mínum og ég verði að gera sem mest úr þeim fyrir okkur..... ohhhh mér finnst ég vera að kafna!!!  Ef ég næ svo ekki að standa undir þeim væntingum að halda hin fullkomnu jól. Svei mér þá það er stærðar kvíðakögull í maganum mínum núna og mér finnst ég svo ráðvilt eitthvað. Ég sakna þess svo að vera heilbrigð og geta bara haft áhyggjur yfir því hvað skal hafa í matinn þann daginn eða pirra mig út af smá munum. Æji þetta er svo sárt stundum og ég þrái svo að verða heilbrigð aftur.

Á maður að lifa eins og þetta sé manns síðasti dagur??? Á maður að lifa lífinu hraðar þegar svona er komið eða hvað á maður að gera ??? Ég hræðist svo að eiga ekki langt eftir og langar svo að nýta tímann á sem bestan hátt en það er ekki þar með sagt að allir aðrir í kringum mann sem að eru heilbrigðir séu sammála því eða vilja taka þátt í því. Mér finnst ég svo misskilin eitthvað og mér finnst svo oft fólk ekki átta sig á því að kannski verði ég ekki hérna eftir ár... Æji úfff það er svo margt sem er að þjaka mig núna. Mér finnst ég vera að missa af öllu eitthvað og ég fæ samviskubit yfir að eyða degi án þess að gera neitt. Fæ samviskubit yfir að geta ekki verið með yngstu snúlluna mína. Mér finnst ég alveg vera að missa af henni. Það er erfitt að vera lasin og geta ekki sinnt barninu sínu vitandi það að maður er með bannvænan sjúkdóm sem gæti fellt mann á stuttum tíma og ekki geta eitt þessum dýrmæta tíma með henni. Æji mér finnst ég pínu vond mamma og ég veit að það er fáránlegt að finnast það en ég kemst ekki hjá því stundum. Í morgunn var verið að mála piparkökur í leikskólanum hennar og pabbi hennar fór og bauð mér að koma líka og ég bara treysti mér ekki til þess og sagði nei. Eftir á sat ég með móral í allan dag yfir að hafa ekki farið því kannski var þetta eini sjénsinn að mála með henni piparkökur á leikskólanum. Úffff púfff mér fannst ég svo vond og samviskubitið er ennþá að naga mig. Mig langar svo að standa mig og geta gert allt fyrir þau en ég bara get það ekki. Ég hef ekki kraftana eða örkuna og verð svo fljótt þreytt á þeim.

Æji sorry þessi orð mín. Ég bara þurfti að fá að koma þessu frá. Já fröken Ásta er ekki bara kraftaverkakona með jákvæðnina í fyrsta sæti hún Ásta getur líka verið sár, reið, döpur og sorgmædd. Ég er langt frá því að vera fullkomin.

07.12.2006 18:11

Færsla dagsins

Úfff..... þetta er búinn að vera strembinn en skemmtilegur dagur. Sirrý mín vakti mig snemma og við skelltum okkur í búðerí . Keypti afmælisgjöfina hans Kristófers, fann jólapils á stelpurnar og eitthvað smá af jólagjöfum. VÁ.... þetta tók á en ég fann hve rosalega ég þurfti á þessu að halda. Krafturinn er kannski ekki mikill en andlega hliðin þurfti þvílíkt á þessu að halda.

Eftir allt rápið skellti ég mér upp á spítala í blóðprufu og útskrift.  Doksarnir þorðu ekki annað en að prufa senda mig heim i leyfi fyrst og sjá hvernig ég myndi plumma mig og auðvitað gerði kella það . Vonandi þarf ég ekki að leggjast meira inn og ef ég þarf að gera það að það verði þá eftir laaaaaaaangan tíma.  Ég var alveg þvílíkt fegin að ég skyldi hafa verið útskrifuð því á deildinni eru núna fólk sem þarf að vera í einangrun út af þessu bakteríu dæmi þarna sem var í fréttunum. Ekki hefði ég viljað vera þarna ennþá og taka sjénsin á því að fá þennan óþverra. Samt skilst mér að það hafi ekki fleiri tilfelli greinst en þetta eina og þetta sé bara í varúðarskyni en samt bara betra að vera heima .

Á morgunn ætla ég að reyna meira búðarrölt. Langar svo að reyna að koma þessu jólastússi frá sem fyrst. Ég er bara eitthvað svo tóm hvað ég á að gefa hverjum fyrir sig. Fattarinn er ekki alveg að virka á öllu þessu lyfjadóti sem er alltaf verið að dæla í mann. Svei mér þá ef ég er ekki að fara að breytast í gullfisk. Ekki legði ég í það að vera í skóla samhliða þessu. Myndi þvílíkt skíta upp á bak án gríns og ég á örugglega eftir að gleyma sjálfri mér einn góðan veðurdag. Það er pínu vont að vera svona. Ég geri ekki annað en að tvíbóka mig allsstaðar og svo man ég ekki hvar ég á að mæta hvar og klukkan hvað. Samt skrifa ég hlutina á miða en man svo ekki hvar miðinn er .... hhehhehehe..... talandi um að vera gullfiskur !!!

 

06.12.2006 22:55

INFO dagsins

Var að enda við að skríða inn um dyrnar. Skellti mér út að borða á Vegamótum með vinkonum mínum. Vá hvað það var gott að komast út og horfa á eitthvað annað en spítalaveggina. Samt skrítið ég held alltaf að ég sé orðin svo brött en um leið og ég fer út þá sé ég hversu mikið vantar upp á þrekið. Ætla samt að reyna að snúast aðeins á morgunn með henni Sirrý minni. Þarf að gera svo margt.... kaupa afmælisgjöf handa Kristófer og ýmislegt annað.

Ég þarf að fara upp á spítala á morgunn í blóðprufu og smá tjékk. Maður er eiginlega skíthræddur við að fara þarna upp eftir eftir að hafa heyrt um einhverja sýkingu þarna á spítalanum. Úffff eins gott að ná sér ekki í eina þannig .

Lyfjameðferðin er svo í næstu viku. Mér er farið að hlakka til án gríns. Gaf mér svo mikið pepp að vita að eitt meinvarpið væri nánast horfið. Vonandi gerist það sama með hin. Ég allavega trúi því.

Ég hef verið að mynda mikil tengsl við aðra krabbameinsveika sem hefur gefið mér svo mikið. Áðan var ég samt að hugsa að það hlýtur að vera erfitt ef einhver af okkur vinkonunum deyr. Það fékk mig til að hugsa pínu hvernig það myndi fara með mig. Ég veit að það gerir manni gott að mynda þessi tengsl því jú það er enginn sem að skilur mann eins vel og þær..... En ætli það sé ekki erfitt að horfa kannski á eftir þessum vinum??? Æji ég veit ekki þetta hræddi mig pínu því mér er farið að þykja svo vænt um þær og vil að við allar náum okkur. Kannski óþarfa pæling !

 

05.12.2006 15:49

Komin heim :)

Þá er maður loksins komin heim ...... Vá það er svo gott að komast í sitt rúm og vera innan um sína hluti. Það er samt alltaf pínu stressandi þegar maður hefur verið lengi inn á spítala í vernduðu umhverfi og fara svo heim. Maður finnur aðeins fyrir óöryggi en sem betur fer lagast það fljótt. Mér finnst hjúkkurnar þarna á 12 G svo yndislegar og skemmtilegar að ég er eiginlega strax farin að sakna þeirra ... hehhehe..... alveg topplið á þessari deild.

Lyfjameðferðin byrjar aftur í næstu viku. Það verður gott að byrja aftur. Það var svo gott að heyra að eitt meinvarpið væri nánast horfið. Mér er eiginlega farið að hlakka til að byrja aftur. Gott að vita að þetta sé að virka og núna hugsa ég til lyfjanna með góðum hug í staðinn fyrir að áður fyrr hugsaði ég um þau sem eitur. Þetta er jú mikið eitur en samt gott eitur sem á að lækna eða halda niðri. Held að það sé regla númer 1 þegar maður byrjar í svona lyfjameðferð að hugsa fallega til lyfjana. Sjá þau fyrir sér í huganum vera að vinna á meinunum. Ekki hugsa til þeirra með fyrirlitningu því ég virkilega trúi því að hugurinn sé sterkasta vopnið í þessu öllu saman. Ég sjálf hef til dæmis oft gert eitt þegar ég fæ verki. Ég leggst niður og hugsa að ég sé ekki með verk. Sé líkamann minn fyrir mér og að hann sé þakinn fallegu hvítu ljósi. Sé mig fyrir mér verkjalausa og segi aftur og aftur ég er heilbrigð og sé mig sem slíka. Oft hefur verkurinn farið við þetta og ég ekki þurft að taka verkjalyf. Hugurinn er svo rosalega öflugt vopn og maður á að nota sér það til góðs í staðinn fyrir að brjóta mann niður því þá er það akkúrat það sem gerist.

04.12.2006 11:56

1000 þakkir og 1000 knús

Ég vil þakka öllum sem hafa styrkt mig. Hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar..... Ég er alveg gáttuð yfir þessu öllu saman. Ykkur hefur tekist að gera líf okkar mun auðveldara og einnig sjáum við fram á að komast saman til Svíþjóðar í janúar eins og við vorum að vonast eftir. 1000 þakkir og 1000 knús frá okkur litlu fjölskyldunni .

03.12.2006 20:09

Styttist óðum í heimferð :)

Hæhæ

Það eru komnar fleiri myndir !!!

Í dag var drenið tekið og það var annað áiiiiiiiii . Einn doksinn var sleginn í morgunn ... heheheh... Honum var nær að ýta í rifbeinin á mér. Ósjálfrátt sló ég hann tilbaka og hann horfði á mig og sagði sorry alveg þvílíkt hissa ... hehhehe... já það er töggur í kellingunni.

Ef ekkert breytist úr þessu þá fæ ég örugglega að fara heim á morgunn. Ég ætla að reyna að fá að byrja í lyfjameðferðinni aftur á þriðjudaginn en ég veit ekki hvort ég fái það í gegn. Þessi vika passar bara betur fyrir mig en næsta vika þannig að það má allavega reyna það .... annars er það bara næsta vika.

Í dag fékk ég að fara í smá leyfi. Skellti mér út að borða með Mr. D og í heimsókn. Ekkert smá gott að komast út en VÁ hvað ég er fljót að þreytast. Eins gott að fara að bretta upp á ermarnar og koma þolinu aftur á réttan kjöl. Mér finnst ég alltaf vera svo hress hér á spítalanum en þegar ég fer út fyrir spítalann þá er ég ekki eins hress og ég hélt. Þolið verður vonandi fljótt að koma þegar heim er komið.

Núna er ég laus við flest af þessu hangandi dóteríi. Þvagleggur, dren og magasondan fokin. Hefðuð átt að sjá mig með allt þetta hangandi dóterí út um allt ..... awwwwww looking good...... eða þannig  . Vantaði bara blikkandi jólaljósin svona til að toppa þetta alveg og kannski jólastjörnu svona á toppinn.

Ég held að ég hafi aldrei borðað eins mikið af take away rusli eins og ég hef gert síðustu daga. Ég bara get með engu móti étið þennan óþverra sem manni er boðið hér á spítalanum. Ég er endalaust að láta færa mér eitthvað óhollt. Hlakka til að komast heim til að snúa blaðinu við. Ég er eiginlega komin með móral dauðans því ég stóð mig svo vel heima í langan tíma. Nú er það bara her aginn og hana nú !!!! 

 

01.12.2006 17:05

Howdy :)

 Hæhæ allir :)

Loksins get ég farið að blogga aftur sjálf... hélt ég myndi farast úr blogg fráhvarfseinkennum .

Þarmarnir í mér eru loksins farnir að sýna smá virkni. Það gerðist bara í gær. Ég þurfti að fara með sjúkrabíl yfir á gamla Boggann þar sem stungið var á milli rifbeinanna á mér og þar komið fyrir dreni. Það nefnilega sást á myndum sem voru teknar í gær að það var risa graftarpollur fyrir ofan þarmana og kom þannig í veg fyrir að þeir næðu að starfa eðlilega. Áiiiii þetta var vont og er ennþá vont  að hafa þetta drena drasl hangandi þarna út. Guð hvað ég skammast mín fyrir steypuna sem vall upp úr mér þarna á skurðaborðinu.... heheheh.... mín heimtaði sko eitthvað slæfandi og ég fékk það aldeilis og eiginlega miklu meira en það...tíhíhíhí... . Held að ég þori ekki að hitta þann doksa aftur í bráð.

Ég er ennþá fastandi og viti minn eina sem ég get hugsað um er Thai matur. Mig laaaaaaangar svo í .....SLEF. Ég hugsa um Thai mat þegar ég vakna á morgnana og hugsa um Thai mat þegar ég sofna á kvöldin . Kellingin alveg að tapa sér !!!!

WOW ... það styttist óðum í jólin og ég hér. Mig langar svo heim að setja upp jólskraut ..... hehhehee... en það verður víst að bíða aðeins. Kristófer minn verður 11 ára núna 8.des. Eins gott að ég verði komin heim. Ég skal vera komin heim þá til að gera eitthvað skemmtó með stubbnum mínum.

Ég var að hugsa það áðan hvað það er búið að vera mikið spítala vesen á mér. Ég er búin að leggjast 4 sinnum inn síðan í lok júlí ... Reynið að toppa það . Vonandi verður árið 2007 mér betra.

Eins og Lilja mín sagði hér fyrir neðan þá fékk ég þær frábæru fréttir að eitt meinvarpið hjá mér er næstum horfið og hin eru óbreytt . Ég var svo glöð þegar doksi sagði mér það að þegar hann fór svo að tala um þarmana í mér þá sagði ég bara skítt með þarminn .... hehehhe. Engin þarmastífla gat skemmt svona gleði fréttir fyrir mér. Bestu fréttir sem ég hef bara fengið síðan ég veiktist.

Ég átti að byrja í lyfjameðferðinni á þriðjudaginn en af því ég lagðist aftur inn þá seinkar það aftur. Fæ reyndar ekki Avastinið til að byrja með  bara hin 3 lyfin. Það er eins gott að meinvörpin haldi sér óbreytt á meðan. Ég bara ætla að trúa því .

Loksins fenguð þið einhverja smá steypu frá mér. Vona að ég hafi getað glatt ykkur með það. Ég er öll að koma til og vonandi koma ekki aftur bakslög. Sem betur fer þá er ég ennþá laus við að þurfa enn annan uppskurðinn. Vona bara að það haldist þannig og að ég fari sjálf alveg í gang með hjálp drensins.

Kiss og knús á ykkur öll

Tjá tjá

Kv Ásta

29.11.2006 15:04

Ásta Love

Jæja.........það á ekki af henni Ástu minni að ganga........hún er komin aftur á sjúkrahús eftir að hún rauk upp í hita og fékk tilheyrandi verki með............þetta eru einhver eftirköst eftir aðgerðina sem hún fór í um daginn og eru læknarnir að reyna að komast hjá því að skera aftur og vonast til að bjúgur og bólgur hjaðni nú að sjálfu sér.........það er semsagt einhver stífla í gangi aftur..............en við trúum því að Ásta komist nú í gegnum þetta sem allra best og vonandi sem fyrst svo hún geti nú komið og bloggað hérna sjálf c",)

En góðar fréttir...eftir aðeins tvö skipti í krabbameinsmeðferðinni er sjáanleg minnkun á krabbanum sem eru að sjálfssögðu alveg frábærar fréttir...........læknar voru búnir að segja Ástu að eftir 6 skipti væri vonast til að krabbinn hefði staðið í stað þannig að minnkun eftir aðeins tvö skipti eru fréttir til að hoppa hæð sína af gleði fyrir og það geri ég hér með *hopp*...........

Ásta sendir sínar bestu kveðjur til allra og þakkar öllum falleg orð og stuðning...............og við höldum bara áfram að senda á hana góða strauma og fallegar hugsanir.........

Luv............Liljan hennar Ástu c",)

27.11.2006 17:05

Komin heim :)

Jæja þá er kellan bara komin heim .

Ekkert smá gott að komast aftur í sitt umhverfi. Ég er öll að koma til og sárin gróa vel. Nú er bara að bíða þangað til ég fæ grænt ljós á að byrja aftur í lyfjameðferðinni. Finnst það pínu erfitt að geta ekki byrjað strax ... hræðist að fá fleiri meinvörp á meðan. Ég verð bara að krossa fingur og vona að það gerist ekki og ef það gerist þá verð ég bara að taka á því þegar þar að kemur.

Ætla að hafa þetta stutt og lagott í dag. Er pínu lúin óg langar mest að liggja fyrir. Vildi bara láta ykkur vita að ég væri komin heim.

Knús á ykkur öll.

Kv Ásta

26.11.2006 20:15

Pizza a la Dominos

Loksins er ég öll að koma til

Var að enda við að troða í mig Dominos Extra pizzu sem að mamma færði mér hérna á spítalann. Spítala maturinn ekki alveg að gera sig hér eins og vanalega. Spurning hvort að ég fari ekki að senda mömmu í eldhúsið að kenna þessum kokki hvernig á að elda mat .

Fékk að skreppa í smá leyfi í gær. Skrapp með henni Önnu minni heim og síðan á Style-inn... hehhehe.... allt gert til að þurfa ekki að borða hér. Ég var alveg búin eftir þetta brölt. Þegar á spítalann kom hlammaði  ég mér í öllum fötunum upp í rúm og svaf í 2 tíma.

Í dag fékk ég aftur smá leyfi. Skellti mér í bíltúr með Didda og Lenu. Fengum okkur ís......susssss... smá svindl á bindindinu mínu . Allt ísnum að kenna hann eiginlega stökk á mig. Ég sver það !!!

Eins og ég sagði áðan þá er ég öll að koma til og hlýtur að styttast í heimferð. Doksarnir eru allavega farnir að trappa mig niður á verkjalyfjunum og bíða eftir fyrsta tækifæri á að senda mig heim .... ekki það að ég sé svona leiðinleg .

Kiss og knús í bili

Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 326
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 109914
Samtals gestir: 20853
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 03:00:04

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir

Afmælisdagur:

9. ágúst 1976

Um:

~ Söfnun ~ 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469

Tenglar