06.04.2007 00:37

Sjokk

Ég hef ekki góðar fréttir að færa.. Því miður þá virðist það vera fastir liðir þessa dagana .
Ég er búin að vera með verki í 2 daga og gat ekki meir í dag og hafði samband við spítalann. Ég var send í rannsóknir og í sneiðmynd eins og ég fór í síðustu viku.
Ég fékk hræðilegar fréttir í kjölfarið. Versti bletturinn í lifrinni stækkaði úr 3.5 cm í 4.4 cm á EINNI viku. Hinir blettirnir stækkuðu allir líka þannig að þetta er gríðaleg breyting á rétt rúmri viku. Ég get ekki lýst því með orðum hvernig mér líður núna. Ég held að ég hafi aldrei verið eins hrædd ... *GRÁT*.
Það er eins gott að ég komist til NY sem fyrst... Vonandi bara strax eftir páska. Það verður allavega keyrt á fullt núna.. Það er greinilegt að það getur ekkert beðið.

04.04.2007 12:51

New York

Það er komið á hreint að ég fari út til NY að hitta læknana fljótlega eftir páska. Þá kemur betur í ljós hvernig framhaldið verður og hvernig þeir vilji stjórna meðferðinni. Ég þarf að hafa fylgdarmenn með... Til að ég skilji þetta læknamál allt þá ætlar Dr Daði.. minn elskulegi bróðir að fara með.

Kv Ásta Lovísa

03.04.2007 18:00

Óvissa óvissa

Ennþá ríkir óvissuástand .... Samt er það nokkuð öruggt að ég fari til New York. Við erum að bíða eftir svari frá lækninum þar. Ég hef hugsað þetta í hringi og ég held að annað hvort fari ég út núna eða ekki.
Núna hef ég líkamlega burði og þol til að taka á móti þessari erfiðu lyfjameðferð og þessu endalausa ferðalagi á milli .. Það segir ekki að ég hafi það eftir örfáa mánuði.
Lifrin er ennþá ekki farin að sýna merki um bilun og þess vegna meiri ástæða. Ég held að ég eigi alltaf eftir að naga mig í handarbökin ef ég læt ekki verða af þessu. Ég sé mig í anda á líknardeildinni blótandi mér fyrir að hafa ekki látið reyna á þetta. Ég get þá allavega sagt að ég hafi reynt allt og þá verður maður kannski sáttari ef baráttan tapast.

Ég fer ekki inn á spítalann á morgunn. Doksinn minn er hræddur um að það geti tafið fyrir þeim úti ef doksarnir hér á landi séu eitthvað að kukla í mér og dæla í mig lyfjum... Hún setti mig samt á krabbameinstöflur sem ég tek í 14 daga. Mér líður betur fyrir vikið að vita að ég sé þá allavegana á einhverju.

Síðusti dagar hafa verið mér mjög erfiðir . Mér finnst rosalega erfitt að taka þessa ákvörðun. Ákvörðun um að vera fjarri börnunum mínum, vinum og ættingjum. Ég held samt að fyrsta heimsóknin sé lengst og svo komi ég út ca 1 sinni í mánuði. Ég veit reyndar ekki ennþá alveg hvernig þetta kemur til með að vera.
Erfitt að fá svör frá þeim úti.. og ég held að ég fái þau ekki alveg nema að fara út og tala við þau augnlitis til augnlitis.
Þetta er samt eitthvað sem að ég verð að gera.. Ég bara verð að athuga hvað þeir hafa upp á að bjóða .. Enda eitt virtasta krabbameinssjúkrahús í Bandaríkjunum. Það er rosalega erfitt að vera í þessari stöðu... Stöðu að vita að ekkert sé að virka hérna heima... Maður heldur heljargreipum í lífið en líður samt eins og maður sé komin með annan fótinn í gröfina. Þetta er hræðileg tilfinning !!!

Ég á ennþá eftir að gera svo margt. Langar til að sjá börnin mín vaxa úr grasi, finna sér maka og eignast börn. Það er örugglega rosa stuð að vera amma .
Langar til að fá að vera áfram með honum Didda mínum.. Höfum fengið allt of stuttan tíma saman. Langar að prufa að trúlofa mig og gifta mig einn daginn.. Æji ég er bara eitthvað svo ósátt við hlutskiptin mín núna. Það er fullt af gömlu fólki sem að þráir ekkert heitar en að fá að deyja. Fullt af fólki sem að tekur líf sitt og ég þrái ekkert heitar en að fá að lifa . Skrítið þetta líf !!

Kveð í bili

Ásta Lovísa

31.03.2007 16:00

Umfjöllun um mig í blöðunum þessa dagana.

Ég sá að það var grein um mig í DV og Morgunblaðinu þar sem verið er að hvetja fólk að styrkja mig svo ég komist út til NY. Mér finnst þetta rosalega fallega gert  ekki misskilja mig ... En málið er að það er ekkert 100% að ég fari til New York. Finnst því frekar óþægilegt að verið sé að styrkja mig á þessum forsendum ... Hvað ef það verður svo ekkert af þessu ???
Ég er alls ekki að vera vanþakklát ... Mér finnst bara ekki rétt að hvetja fólk að taka þátt í þessu á þessum forsendum því þetta er ekki alveg komið á hreint.

30.03.2007 16:44

Hæ hó

Á miðvikudaginn þarf ég að fara inn á spítala. Þá verður stungið í nárann á mér og þaðan þrætt alla leiðina upp í lifrina og mér gefið háskammta skammtur beint í lifirina. Eftir það verður fylgst vel með mér... Skilst að ég verði undir strangri gæslu í ca 6 tíma á eftir og ef ég verð eitthvað lasin eftir þann tíma verð ég lögð inn yfir nótt. Þetta verður gert annan hvern miðvikudag í 3 skipti á meðan hlutirnir eru að koma í ljós hvort ég fari út til BNA eða hvað verður gert í framhaldinu. Allavega finnst mér mjög jákvætt að þurfa ekki að vera lyfjalaus á meðan verið er að vinna í mínum málum. Lyfið sem ég fæ er lyf sem ég hef verið á áður. Prufaði það reyndar mjög stutt því það var tekið af mér því krabbameinið hafði stækkað. Samt er ekki alveg komin nógu mikil reynsla á það og ekki má gleyma því að ég fæ mun stærri skammt en ég hef nokkurn tímann fengið áður. Síðast fékk ég miklar aukaverkanir af þessu lyfi þannig að ég er pínu kvíðin en samt þakklát. Betra að vera á lyfjum en án þeirra þegar maður er í þessari stöðu .

Ég lenti í furðulegri lífsreynslu áðan. Ég kom heim og fann brunalykt en spáði ekkert í því og fór bara inn heima. Stuttu seinna kemur Helga barnapía til mín og kallar á mig að það sé kveiknað í ruslageymslunni. Ég hleyp niður og opna ruslageymsluna og á móti mér kemur þvílíkur reykur. Það logaði í einni ruslatunnunni. Ég, Kristófer Daði, Helga og vinkona hennar gripum garðslönguna og byrjuðum að sprauta á eldinn á meðan við biðum eftir slökkviliðinu. Þegar þeir mættu á staðinn vorum við búin að slökkva í tunnunni þannig að þetta náði aldrei að verða neitt alvarlegt. Eins gott að við föttuðum þetta á þessum tímapunkti því að eldurinn var byrjaður að teygja sig upp í rörið sjálft. Ég fékk reyndar dúndrandi hausverk eftir þetta allt saman.. Enda ekki gott að anda að sér þessum ógjeðslega reyk hvað þá þegar maður er viðkvæmur fyrir..... Enn þetta endaði allt saman vel sem betur fer .

Grísirnir mínir, Diddi og Lena verða hjá mér um helgina þannig að það verður stuð á bæ. Gaman að fá að hafa þau áður en hasarinn byrjar á miðvikudag.

Hafið það gott um helgina....

Kv Ásta Lovísa

28.03.2007 17:06

Dagurinn í dag

Í gær var erfiður dagur... Dagurinn í dag er mun betri enda ekki annað hægt í þessu fallega veðri.
Ég verð að viðurkenna að fréttirnar voru mikið sjokk... Sjokk sem ég er farin að þekkja svo vel því miður. 
Í gær gaf ég mér tíma til að syrgja þetta. Ég lá í fanginu á honum Didda mínum og fékk að gráta og fá útrás fyrir öllum þeim tilfinningum sem að komu fram. Eftir það leið mér betur og tilbúin í að sjá björtu hliðarnar aftur.
Þó að fréttirnar hafi ekki verið góðar þá var samt margt jákvætt við þetta. Krabbinn er ennþá bara í lifrinni og eitlarnir sem að grunur væri um að krabbinn væri komin í stækkuðu ekki samhliða hinu og er því ólíklegt að krabbi sé í þeim. Það er mikill léttir þó að hitt skyggi á þá gleði.

Í dag fékk ég aðrar fréttir. Fréttir sem að mér finnst alveg frábærar og vona svo innilega að geti gengið upp. Það er verið að vinna í því að athuga hvort að það sé möguleiki á að gera þessa meðferð hér á landi í samráði við læknana úti. Ef það er hægt þá er það alveg frábært. Þá þyrfti ég ekki að vera fjarri börnunum mínum, ættingjum og vinum. Kannski þyrfti ég eitthvað út ... Ég veit það ekki ennþá en allavega þá yrði þetta að mestu leiti hér eða jafnvel alfarið... GOD... yrði það ekki ljúft???

Takk fyrir viðbrögðin ykkar í gær og ég tala nú ekki um öll fallegu kommentin... Úffff það gladdi mitt hjarta alveg rosalega.

Ég hef fengið fjöldan allan af mailum. Þið sem bíðið eftir svari frá mér verðið að bíða þar til á morgun. Ég er nefnilega á hraðferð því ég er að fara út eftir smá stund. Í kvöld er stefnan svo tekin á tónleikana til styrktar Ljósinu og ætla ég að skella mér út að borða áður með mömmu og systur minni.

Hafið það gott og ég sendi knús á línuna.

Kv Ásta Lovísa

27.03.2007 17:16

Fréttir !!!

Enn og aftur fékk ég ekki góðar fréttir... Þessi barátta ætlar að reynast mér ansi erfið . Á þessum stutta tíma eða  á aðeins ca 5 vikum hefur ÖLL meinvörpin náð að stækka þrátt fyrir lyfjameðferð. Það er rosa slæmt á ekki lengri tíma. Það sem er verst við þetta allt er að ég er búin að prufa öll nýjustu lyfin á markaðnum og á aðeins þessu gömlu eftir. Við vitum það flest að nýju lyfin eru oftast betrumbæting á þeim gömlu. Ég er hætt í lyfjameðferð hér heima og næsta skrefið er að koma mér út sem fyrst. Það er bara ekki annað hægt í stöðunni... Því miður *GRÁT*.

Ég fékk samt líka góðar fréttir. Góðu fréttirnar eru þær að öll önnur líffæri eru hrein. Eitlarnir sem að höfðu verið að sýna stækkun .. Hafa ekki stækkað neitt núna. Það er því ólíklegt að það sé krabbi í þeim.. því þá hefðu þeir átt að fylgja stækkuninni á öllu hinu.
 
Þetta er rosalegt sjokk samt sem áður. Það er sárt að vita að með þessu áframhaldi og ef ekkert fer að gerast til að draga úr þessu hröðu þróðun þá er vitað mál að ég á ekki langt eftir. Mér finnst það virkilega sárt og ég er virkilega hrædd. Núna líður mér eins og ég sé að kafna og það sé ekkert sem að geti hjálpað mér að ná andanum aftur. Úffff... Ég hata stöðu mína í lífinu núna !!!

Ég er ekki í góðu skapi núna... Ég gæti setið hér leeeengi og ausað út en ég ætla ekki að gera það. Ég ætla ekki að leyfa reiðinni að ná tökum á mér núna þannig að ég ætla ekki að hafa þetta neitt lengra.
Enn og aftur er sorgarferlið komið í gang og nú er að syrgja þessar fréttir þar til ég sé sólarglætuna að nýju.

Bið að heilsa ykkur í bili

Kv Ásta Lovísa

26.03.2007 17:19

Smá stress í gangi

Ég var að koma úr x5 lyfjagjöfinni minni og það vildi svo til að doksinn minn hélt ég væri búin með x6 skipti og pantaði fyrir mig rannsókn á morgunn. Það er allt orðið bókað í næstu viku í sneiðmynd þannig að ég verð að fara á morgunn í sneiðmynd af kviðarholinu og sneiðmynd af lungunum. Þannig að rannsóknardagurinn mikli er á morgun .  
Hitti svo doksann seinnipartinn þannig að ég fæ líka út úr þessu öllu á morgun... Heavy dagur á morgun *svitn*.

Doksinn sagði mér að af því það er svo stutt síðan ég fór síðast að þá eru í raun bestu fréttirnar að þetta hafi allt staðið í stað og ennþá bara í lifrinni. Það eru þær fréttir sem ég er að vonast eftir að fá á morgunn. Kannski ágætt að þetta gerist á þennan hátt .. Því þá næ ég ekki að mynda þetta þvílíka stress eins og ég hef alltaf gert. Ég hef alltaf fengið vondar fréttir á þessum fundum þannig að það er spurning hvort að ég fái loksins góðar fréttir. .. God væri það ekki ljúft ???

Læt ykkur vita um leið og ég get og treysti mér til.

Kv Ásta Lovísa

25.03.2007 00:10

Life is full of lots of up and downs

Jamms ég er ennþá heima... Búin að vera lasin síðan á þriðjudagskvöld. Held samt að þetta séu lyfin frekar en flensan..... Líðanin er eitthvað svo lík því. Er öll að koma til og tilbúin í slaginn á mánudaginn .

Ég fór að hugsa áðan. Mér finnst ég pínu byrjuð að venjast þeirri tilhugsun að vera lasin og eiga kannski ekki langt eftir. Fyrst þá átti ég rosalega erfitt með það.... Gat bara alls ekki hlustað á róleg lög eða séð sorgleg atriði í mynd án þess að fara að gráta. Ég er það ennþá að vissu marki en samt í miklu minna magni.
Ég er farin að geta hlustað á næstum öll lögin mín. Það er aðeins tvö lög sem að snerta mig ennþá ... Er reyndar hætt að skæla yfir þeim en ég fæ núna bara gæsahúð og hroll. Veit ekki alveg afhverju þessi lög endilega.... mér finnst þau bara æði og fæ aldrei leið á þeim. Það er lögin Unintended með Muse og A shoulder to cry on með Tommy Page.
Jamm fröken Ásta er væmin ... Ég eeeeelska vælu lög án gríns . Ég myndi meira að segja drepa flóðhest úr leiðindum með lögunum mínum .

New York dæmið er ennþá í vinnslu. Læknirinn úti er komin með myndirnar mínar og er að fara yfir þær. Mér skilst að hann sé ágætlega jákvæður yfir þessu og ágætar líkur á því að ég fari út. Finnst samt alltaf jafn erfitt þegar læknarnir segja að það séu litlar líkur á að ég læknist alveg. Vilja frekar meina að það sé hægt að kaupa tíma með þessu... PIRR PIRR PIRR... Finnst alltaf jafn sárt og erfitt að heyra þetta þó svo ég viti þetta alveg .

Ef ég fer út þá fer ég líklegast í meðferð sem að ég held er ekki notuð hér á landi. Þori samt ekki að fullyrða það.
Ætla að reyna að útskýra hvernig hún virkar. Málið er að núna er ég með lyfjabrunn í bringunni sem að lyfjunum mínum er dælt í. Það liggur slanga frá brunninum í æð í hjartanu og þannig dreyfast lyfin í líkamann. Í þannig meðferð þarf alltaf að hugsa um hin líffærin í líkamanum líka og því kannski ekki hægt að gefa eins sterka skammta og sumir þurfa. En þessi meðferð þarna í New York er þannig að þeir setja brunn á magann ekki langt frá lifrinni ef ég skil þetta rétt. Þá er lyfjunum dælt þar inn beint í lifrina. Með því er hægt að gefa stærri skammta beint á svæðið. Þessi útskýring kemur alfarið frá mér og hvernig ég er að skilja þetta. Á eftir að fá betri útskýringu þegar á líður .

Knús og klemm

KV Ásta Lovísa

22.03.2007 17:34

Bloggtími

Eftir lyfjameðferðina á mánudag var ég voða hress og gat því skellt mér í ræktina á þriðjudeginum. Ég hélt mér FAST í handriðið þannig að ég fékk ekki aðra byltu niður stigann eins og síðast . Ég labbaði á hlaupabrautinni í 20 mín og ég var ekkert smá ánægð með að afreka það. Ég veit að þetta er ekkert svakalega mikið en það er mikið fyrir mig í þessu ástandi.

Á miðvikudeginum byrjaði ég svo að verða slöpp og ég er búin að vera frá síðan. Ég veit ekki alveg hvað er að hrjá mig. Hvort þetta sé flensa eða hvort þetta séu aukaverkanir af síðustu lyfjagjöf. Ég er allavega búin að liggja upp í sófa eins og skata og sofa og sofa og með símana á silent. Ég er allavega með hausverk, beinverki og mér er flökurt. Erbituxinu getur reyndar fylgt flensu einkenni þannig að þetta þarf ekki endilega að vera flensan sem er að ganga.

Ætla að leggjast aftur þannig að þetta verður bara stutt í dag.

Kv Ásta Lovísa

21.03.2007 20:05

Tónleikar til styrktar Ljósinu

Ljóslifandi

www.myspace.com/ljoslifandi

Minningartónleikar til styrktar ljósinu.

 

Grensáskirkja, 28. mars

Diddú, Stefán Hilmarsson og Guðbjörg Magnúsdóttir, Vox Feminae og Stúlknakór Reykjavíkur undir stjórn Margrétar Pálmadóttur.

Verð: 2100. Hefst kl. 20:00

 

Fríkirkjan í reykjavík, 29. mars

Múm, Pétur Ben og Ólöf Arnalds.

Verð: 1200. Hefst  kl. 20:00

 

Nasa 28. mars

Dr. Spock, Benny Crespo's Gang, Rass og Innvortis!

Verð: 1200. Hefst kl. 21:00

 

Forsala miða hefst 21. mars í 12 tónum og útibúum Glitnis í Kringlunni, Smáralind og Kirkjusandi

19.03.2007 20:46

Lyfjó

Þá er 4 skiptið af Erbituxinu búið. Dagurinn gekk vel fyrir sig ... Var reyndar einhver misskilningur í gangi því í dag átti að vera langur lyfjadagur og ég var látin mæta frekar seint. Þetta reddaðist alveg .. Var síðasti sjúklingurinn sem yfirgaf deildina í dag .
Ég ræddi við doksann minn um NY og ætlar hún að athuga betur hvað þetta sé og hvort þetta sé möguleiki fyrir mig og við verðum svo bara að meta það saman hvort þetta sé eitthvað sem er sniðugt eða ekki. Ætla rétt að vona að þetta sé möguleiki og það góður möguleiki sem gæti gefið mér von um framhaldið.

Mér finnst pínu skrítið að vera í lyfjameðferðinni núna. Það eru allir búnir að klára sem hafa verið á svipuðum aldri og ég og verið mér samferða ... Nema ég.
Það er náttúrulega frábært ekki miskilja mig því ég óska engum að vera í þessari stöðu og eiga allt lífið framundan. Finnst bara skrítið að vera ein sem þarf alltaf að halda áfram. Pínulítið lonely og mér finnst þetta líka rosalega erfitt . Ég þrái svo
svakalega að vera í sömu stöðu og að fá stanslaust að vita að þetta lyf virkar ekki heldur við þurfum að breyta um lyf enn einu sinni dregur alltaf meir og meir vonina úr mér.
 Ég veit að ég er kannski ekki upplífgandi penni þessa dagana.. Ég ræð bara ekki við mig eins og er. Svartsýnis púkinn ætlar greynilega að staldra lengur við þessa dagana en hann er vanur... Ég kemst yfir þetta ... Tekur bara pínu tíma .

Kv Ásta Lovísa

18.03.2007 12:57

Sunnudagur..

Helgin er bráðum á enda og á morgun er lyfjameðferðinn. Þetta er í x4 sinn sem ég fæ Erbituxið og þá eru aðeins x2 skipti eftir þar til ég fer í rannsóknir að nýju. Ég er strax komin með hnútinn í magann enda aldrei fengið góðar fréttir á þessum blessuðu fjölskyldufundum. Ég finn alveg að ég er ekki ennþá búin að jafna mig alveg eftir síðasta fund.. Mér finnst einhvern veginn að fyrst að Avastinið sem átti að vera rosa töfralyf virkaði ekki fyrir mig .. Þá gerir ekkert lyf það .
Diddi er alltaf að segja við mig að ég megi ekki gefast upp fyrr en ég hef reynt allt og það sé svo margt sem hægt sé að prufa .. En stundum er ég bara svo þreytt á að berjast og mig langar mest að gefast upp. Þessi uppgjafartónn er búinn að vera í mér síðustu daga. Svei mér þá ég veit stundum ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki mína nánustu og öll fallegu kommentin ykkar  til að banka í hausinn á mér þegar mér líður sem verst.

Ég hef ekki ennþá heyrt neitt meira um New York. Það tekur sinn tíma að vinna úr þessu öllu og tíminn verður bara að leiða það í ljós hvað gerist. Ég er hætt að þora að gera mér vonir því það er alltaf svo sárt þegar hlutirnir ganga ekki upp hjá manni eins og ég hef sannarlega fengið að kynnast síðustu mánuði. Skrítið samt því það er verið að segja við mig að ég sé ekki nógu spennt yfir þessu .. Eins og ég hafi ekki áhuga á þessum möguleika en það er bara ekki málið. Ég bara get ekki endalaust gert mér rosa vonir yfir einhverju sem að gengur svo ekki upp. Það er bara of sárt endalaust ...

Það eru margir sem eru að spyrja út í reikninginn minn. Ég vil ekki setja hann inn nema ég fái grænt ljós á að fara út. Kann ekki við að þyggja hjálp og svo gengur þetta kannski ekki upp. Ég hef það fínt núna þökk sé ykkur öllum þannig að ég þarf ekki hjálp eins og staðan er núna. Takk samt fyrir að vilja hjálpa .

Knús á línuna

Kv Ásta Lovísa

16.03.2007 13:57

Loksins blogg

Sorry hvað ég er búin að vera löt að blogga... Fékk einhvern blogg leiða eftir að ég fékk slæmu fréttirnar síðast. Það dró úr mér frekar mikinn kraft og ég verð eiginlega að viðurkenna að það hefur verið pínu erfitt að halda andlitinu síðan. Þetta er að koma hjá mér og ég er að reyna að horfa jákvæð á lífið.

Ég fékk gott símtal í gær. Símtal sem gaf mér rosalega mikið og gaf mér pínu litla von um líf mitt. Ég tek það fram að kannski er þetta eitthvað sem að ég hef ekki möguleika á að reyna en ég mun samt gera allt í mínu valdi til að skoða þennan möguleika og reyna ef það er einhver pínulítill sjéns að framkvæma... Núna get ég ýmindað mér að þið klórið ykkur í hausnum og hugsið hvað er kellingin að steypa .. heheh... En ég skal segja ykkur frá því sem að gleður mitt hjarta þessa dagana.
Málið er að það er stofnun í BNA sem ég hef verið að horfa til. Ég er búin að vera í sambandi við konu sem að tengist þessari stofnun og hún þekkir til hjóna sem að vinna þar. Þessi stofnun hefur verið með rannsóknir af lyfjum og eru að þróa lyf í langan tíma áður en þau eru leyfð á markað. Ég vildi vita hvort að þessi stofnun væri með einhver trial lyf sem að ég gæti fengið að prufa fyrir þá og gæti passað í sem gæti gefið mér einhverja von. Það kom svo í ljós að þau höfðu engin lyf sem hentaði mínum veikindum en þau vita um aðra stofnun sem að hefur það.
Sú stofnun er í New York og ég er búin að vera að lesa heimasíðuna þeirra og þeir virðast vera einn af þeim færustu þegar viðkemur lifrinni. Ég er rosalega spennt fyrir þessu og er að kynna mér allt um þennan spítala. Það verður bara að koma í ljós hvort þetta sé eitthvað sem að gengur upp fyrir mig eða ekki. Það er samt einn ókostur við þetta ... Það er rosalega dýrt að fara í meðferð í Bandaríkjunum. Mér skilst að meðferð fyrir mig hjá þeim gæti kostað 4-5 millur.... Jamm það er mikill peningur en kannski ekki mikill peningur ef ég fæ líf mitt aftur. Það er ekki hægt að verðsetja líf manns og lífið er svo miklu meira virði en einhverjir peningar.
Ég verð að hugsa þetta vel og finna leiðir til að láta þetta allt saman ganga upp... þar að segja ef þessi möguleiki er til boða. Ég verð bara að segja að ég vona svo innilega að þetta geti gengið upp og ég fái kannski líf mitt aftur... Þó það væri ekki nema bara lengri tíma með börnunum mínum. Kannski er það of mikið til ætlast að læknast .. Kannski líka mjög ólíklegt.... en ef ég fæ lengri tíma með börnunum mínum þá er það vel þess virði.
Allavega þá á ég eftir að skoða þetta vel og ræða þetta við minn læknir og bróður minn. Hvort þetta muni verða að veruleika eða ekki verður að koma í ljós og ég mun leyfa ykkur að fylgjast með.

Helgin er framundan og ég verð með snúllurnar mínar. Ætla að reyna að eiga notalega helgi með þeim. Tíminn sem við eigum saman er dýrmætur. Það er eins og maður átti sig ekki á því fyrr en eitthvað kemur upp á. Skrítið að það þurfi alltaf eitthvað svoleiðis til að maður kunni að meta það sem maður hefur. Það er eiginlega pínu fáránlegt .

Eigið góða helgi !!



Kv Ásta Lovísa


13.03.2007 16:27

Bull dagsins :Þ

Howdy

Ég hef ekkert orðið veik af lyfjagjöfinni sem betur fer. Skelltum okkur út að borða á Tapas í gærkvöldi í tilefni dagsins... Ekkert smá góður matur og ekki skemmdi félagsskapurinn. Við vorum 6 talsins og ég verð bara að segja að það var geggjað stuð .

Ég er búin að vera pínu ofvirk í dag. Er búin að vera á haus að laga til .. En ég má það reyndar ekki... ég bara gat ekki hamið mig .. hehehe.. Íbúðin var á haus og ég bara meikaði hana ekki lengur þannig. Skrítið að ég skuli búin að vera ofvirk því ég fékk enga stera í gær. Kannski bara svona ýmindunar stera sem að hafa virkað fínt í dag .

Ég er að fara á Vegamót á eftir (aldrei þessu vant .. hehehe...) að hitta sponsorinn minn. Hún Pálína er alltaf jafn hress og alltaf jafn gaman að hitta hana. Mín bara alltaf úti eitthvað að flakka þessa dagana. Finnst það reyndar algjört möst því ég finn að ég verð oft down þegar ég er ein heima. Það er eins og hausinn á manni fari þá frekar á flug.

Ég og Diddi erum búin að vera að reyna að lesa á netinu ýmislegt áhugavert sambandi við veikindin mín... En god hvað það er erfitt að reyna að skilja þessi fræðiheiti öll. Maður þarf eiginlega að vera læknir til að geta klórað sig eitthvað í gegnum þetta... Fúlt því ég er svo staðráðin í að finna einhverja leið til að ná heilsu að nýju. Þetta hlýtur að lærast eins og hvað annað ... Spurning um að skella sér bara í læknisfræðina eða hjúkkuna því maður verður orðin svo sjóaður í þessu öllu saman .

Guðný mín ég var að skoða dagbókina mína og ég sé að ég get mögulega troðið þér að eftir hádegi 15.ágúst. Hvernig hljómar það beyglan þín ??? Frussss.... knús á þig dúllan mín. Þú veist að ég geri allt fyrir þig . Hringdu bara í mig og ég skal fórna öllu fyrir þig .. hehhe.. Er það díll ??

Knús og klemm

Kv Ásta Lovísa
Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 326
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 109840
Samtals gestir: 20820
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 02:38:48

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir

Afmælisdagur:

9. ágúst 1976

Um:

~ Söfnun ~ 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469

Tenglar