07.05.2007 20:38

New York.... New York

Hæhæ  nú blogga ég hérna beint frá stóra eplinu !!

Ferðin hingað í gær gekk þrusu vel fyrir sig .
Allt stóðst sem átti að standast þannig að ég var ennþá vel hress þegar við náðum á leiðarenda.

Í morgun mætti ég, Diddi og Daði bróðir saman á Sloan Kettering Centerið og þurftum að fylla ennþá meira fjall af pappírum.
Eftir það hitti ég læknana og var send í blóðprufu, CT Scan af kviðarholi og lungum.
Ekkert smá gott að þessi dagur hafi loksins gengið í garð. Ég er búin að vera brosandi allan hringinn þrátt fyrir að dagurinn hafi tekið á ... Þetta var bara svo svakaleg upplifun eitthvað.
Umhverfið hérna er eitthvað svo allt öðruvísi heldur en maður er vanur heima.  

Á morgun fáum við að vita út úr myndunum. Hittum læknana reyndar ekki.. Heldur eigum við að bíða eftir símtali frá þeim.
Myndirnar segja allt sem segja þarf um framhaldið og hvað hægt sé að gera.
Þannig að við sitjum hérna með krosslagðar fingur og vonum eftir góðum fréttum á morgun.

Ef meinvörpin eru ennþá bara í lifrinni þá talaði Dr. Angelica að mín besta von um einhver framför væri að fá brunn beint í lifrina.
Þá verður það gert hér í NY mjög fljótlega... Jafnvel í þessari ferð sagði hann.
Fengum að sjá þennan brunn og VÁ hann er HUGE ... hehehhe... Enda kallaður "Hockey Pökk" hérna úti.
Kom mér ekkert smá á óvart hvernig hann lítur út í samanburði við þann litla sem ég er með á bringunni.
Honum er komið fyrir á vöðva við mjaðmaspaða, gallblaðran er fjarlægð og snúra sett beint í æð þarna í lifrinni.

Mér líður rosa vel .. Verið pínu þreytt og kvalin en samt eitthvað svo glöð og jákvæð .

Ég held svei mér þá að ég hefði ekki getað skilið allt sem doksarnir sögðu og þeir mig án þess að hafa Daða "bró" doksa með í för... Það skipti greinilega öllu fyrir mig að hafa hann með þrátt fyrir að ég og Diddi skiljum ágætlega ensku.
Hann lenti svo oft að þýða fyrir okkur það sem hinir læknarnir voru að segja og ég var oft eitt spurningarmerki.
Þannig að þetta var 100% rétt ákvörðun að hafa hann með í þessari fyrstu ferð .. Þar sem við þurftum að vera að segja læknunum sjúkrasöguna mína aftur og aftur og fram og tilbaka.

Ég ætla að láta þessa romsu mína duga í bili .. Þar til á morgun. Munið að krossa fingur fyrir mig og senda mér hugsanir og ég mun gefa upplýsingar um leið og ég kemst í það um framhaldið og útkomu myndanna.

Knús heim á klakann

Kv Ásta og CO...

05.05.2007 18:21

Þórdís Tinna og NY

Elskuleg vinkona mín hún Þórdís Tinna átti virkilega erfiðan dag í gær.
Því miður þá hefur hún greinst með krabbamein að nýju og þarf í stóra aðgerð í næstu viku.
Ég veit að þið hafið hjálpað mér rosalega mikið og mig langar til þess að biðja ykkur að hjálpa henni líka ef þið mögulega getið. Hún þarf sannarlega á ykkar stuðning að halda núna og ég grátbið ykkur að stoppa við á síðunum hennar.

http://blog.central.is/thordistinna

http://68.simnet.is/


Á morgun hefst hjá mér ferðalagið langa til stórborgarinnar NY.
Á mánudaginn er rannsóknardagurinn þannig að ég efast um að ég geti sett neitt inn fyrr en á þriðjudag hvernig það fer allt saman. Það er 5 tíma mismunur á milli landana þannig að þegar ég er að mæta í CT kl 14 þá er kvöldmatarleyti hér á Íslandi. 
Held svo að myndirnar verði ræddar sama dag eða daginn eftir veit það samt ekki alveg á þessari stundu.

Er pínu stressuð á að þeir sjái eitthvað sem að hefur ekki sést hér á landi með okkar tækni og verð að viðurkenna að ég er ekki alveg búin að vera upp á marga fiska í dag.
Komin í smá spennufall ...Loksins komið að þessu langþráða ferðalagi.
Ég hræðist líka að kannski er komið einhver önnur hlið upp sem þeir ráða svo ekki við.
Örugglega alveg eðlilegar vangaveltur og hræðsla þegar maður er stanslaust að berjast.
Þetta skírist allt betur þegar ég kem þarna út og vonandi gengur þetta bara allt vel.

Vil þakka ykkur enn og aftur fyrir stuðninginn því án ykkar allra væri ég ekki á leiðinni til NY.

Allavega þá ætla ég að kveðja ykkur í bili og set inn fréttir um leið og ég get eða fengið vinkonu mína til þess.

Kv Ásta NY fari

03.05.2007 14:06

Dagurinn í dag...

Skellti mér í heilun í morgunn.. Náði meira að segja að sofna þar þrátt fyrir ofvirknina út af sterunum .. Það segir allt sem segja þarf hversu gott þetta var .

Margir eru að svekkja sig á því að ég fái ekki meðferð þarna úti strax í þessari för. Málið er að þó svo að það væri í boði þá gæti líkaminn minn ekki tekið við neinum meðferðum núna því hann er ennþá of veikur eftir veikindin sem ég var að stíga upp úr.
Við viljum nú ekki að meðferðin sjálf komi mér í gröfina þannig að það hefði hvort sem er ekki verið hægt.
Ég er hætt að trúa á tilviljanir og ég veit að þetta á að vera svona og hitt fylgir svo á eftir þegar það á að gerast.
Þarf nú varla að bíða mikið lengur þegar boltinn er kominn af stað. Ég trúi því  allavega!! .

Solla í Ljósinu þú mátt endilega slá á þráðin til mín aftur við tækifæri. Ég man ekki númer þitt og langar svo að heyra í þér aftur .

Knús á liðið

KV Ásta Lovísa

02.05.2007 15:13

Fréttir af mér :)

Allt gengur sinn vanagang...  Bíð spennt eftir sunnudeginum .

Er frekar ör og stuttur í mér þráðurinn núna út af sterunum en ég reyni að láta það ekki á mig fá. Þessir sterar eru víst frekar erfiðir ... Erfitt með svefn og á erfitt með að sitja kyrr... Frekar fyndið .

Á mánudaginn verður langur og erfiður dagur í NY ... Fæ að hitta sérfræðingana og þarf að fara í myndatöku allt sama daginn. Held að ég fari svo bara aftur heim fljótlega aftur og þá verða myndirnar skoðaðar og framhaldið ákveðið. Hef ekki trú á öðru en að ég fari því fljótt út aftur til NY... þegar maður er á annað borð alveg komin til þeirra og búið að skoða mann og svona. Þannig að ég ætla rétt að vona að þessi endalausa bið fari að taka enda.

Allavega þá hef ég það alveg ágætt núna og á fullu að safna kröftum núna fyrir löngu ferðina mína á sunnudaginn.

Takk öll fyrir að vera svona yndisleg ....

Kv Ásta Lovísa

30.04.2007 22:47

Loksins ... Loksins komin heim :)

Jæja þá er maður loksins komin heim... Get ekki lýst því hvað það er gott .
Þetta eru búnar að vera frekar erfiðar tvær vikur.. Berjast við hita, verki og ógleði.
Sýklalyfin virkuðu trúlega ekki og á endanum var ég meðhöndluð með steralyfjum sem að styðja líklega þá tilgátu að ég sé komin með svo kallaðan tumor hita .
Þá leysa meinvörpin út eitthvað efni í líkamann sem að líkaminn svarar með því að gefa frá sér hita. Úfff ég ætla samt rétt að vona ekki.. því það ástand gæti þá verið komið til með að vera og þá þarf ég að vera mikið meðhöndluð af sterum sem er ekki gott fyrir líkamann lengi og ekki gaman að vera eins og útblásin hvalur alltaf hreint.

Á sunnudaginn er stefnan tekin á NY til að fá annað álit. Þá fæ ég að hitta læknana mína og verð send í CT scan í þeirri ferð
Er búin að fá tíma á mánudeginum þannig að núna er bara að halda mér í gjörgæslu og til að safna kröftum þangað til.

Ætla ekki að hafa þetta mikið lengra núna er ennþá frekar máttlaus og sloj.. Vildi bara láta heyra í mér og láta vita að ég er á batarvegi.

Kv Ásta Lovísa

28.04.2007 18:44

Nýjar fréttir af Ástu Lovísu

Ásta bað mig að senda ykkur kveðju og setja inn fréttir af henni.

Hún er ennþá á spítalanum.  Það er búið að taka hana af sýklalyfjunum af því að þau eru greinilega ekkert að virka nógu vel á hitann.  Í staðin var hún sett á stera.  Hún mældist líka lág í blóði og fékk blóðgjöf í gær og hresstist við það.
Hún er hressari í dag en í gær.

Ásta fór í sneiðmyndatöku sem sýndi stækkun á meinvörpunum en sem betur fer hefur þeim ekki fjölgað og þau hafa ekki dreift sér.  Það eru góðar fréttir  

Nú miðast allt að því að Ásta nái sér nægjanlega vel til að hún geti farið til NY næsta sunnudag. 

fh. Ástu Lovísu
Arndís K.

24.04.2007 19:56

Enn á spítala

Hún Ásta okkar er ennþá á spítalanum   Sýklalyfið sem hún var að fá í æð er ekki að virka nógu vel þannig að hún var sett á aðra tegund af sýklalyfi.  En því miður þá veldur það leiðindar aukaverkunum fyrir Ástu, ógleði og uppköst.  Vonum bara að það virki.  Ásta er ennþá að rjúka upp í hita og læknarnir eru ekki vissir um hvað það er sem veldur því, hvort það er gallblaðran eða eitthvað annað.  Þeir tala um hugsanlegan "tumor fever" sem kemur stundum hjá krabbameinssjúklingum, en ekkert er staðfest.

Góðu fréttirnar eru þær að það náðist loks í lækninn í NY og áætlaður ferðatími Ástu út verður 6. maí n.k.  Hún hefur þá góðan tíma til að hressast og ná kröftum til að ferðast til NY.  

Ástan okkar er komin með heimþrá eftir rúmlega viku spítalalegu og þráir að komast heim.  Sendum henni fallegar hugsanir, bænir og orku svo að það verði sem fyrst.

kv.
Arndís

21.04.2007 11:36

Ásta er ennþá á spítalanum

Smá fréttir frá Ástu.  Hún er ennþá á spítalanum, læknarnir telja að hún sé með krónískar bólgur í gallblöðru sem eru að valda þessum einkennum.  Hún er að fá 3 poka af sýklalyfjum í æð á dag sem vonandi ná að vinna á sýkingunni.
Ekkert hefur heyrst frá NY en Ásta hefði heldur ekki fengið brottfararleyfi á sunnudaginn vegna veikinda.  Hún vonast til að læknirinn sinn nái sambandi við læknana í NY á mánudaginn.

Við sendum Ástu baráttukveðjur og vonum að næsta helgi verði ferðahelgin hennar   

fyrir hönd Ástu
Arndís K.

19.04.2007 20:31

Fréttir af Ástu

Hæ,  Ásta bað mig að láta ykkur vita af sér.  Hún er ennþá á spítalanum, hún var að hressast í gær en rauk svo upp í hita í dag.  Ekki er ennþá vitað hvað er að valda hitanum (sýkingunni) en læknarnir vilja senda hana í nánari rannsóknir til að finna út hvað veldur.  Ekkert hefur ennþá heyrst frá læknunum úti í NY en það er föstudagur á morgun og kannski heyrist frá þeim þá.  Veikindi Ástu núna setja líka strik í reikninginn og óvíst hvort að hún verði ferðafær á sunnudaginn þó að grænt ljós komi frá NY.

Takk fyrir fallegar kveðjur og hvatningarorð.

fh. Ástu
Arndís K.

17.04.2007 12:48

Kveðja frá Ástu Lovísu

Ásta bað mig að skila kveðju til ykkar og láta vita að hún var lögð inn á spítala í gær til meðferðar við sýkingu sem hún greindist með.  Ekki en enn búið að staðsetja sýkinguna.

Við heyrum vonandi frá Ástu sjálfri fljótlega.  Á meðan langar mig að biðja ykkur að hugsa hlýtt til hennar.

Kveðja,
Arndís K.

14.04.2007 13:58

Kjaftasögurnar og NY

Í gær var ég virkilega reið og sár... Í dag er ég það ekki.
Takk fyrir öll fallegu kommentin frá ykkur og takk fyrir að hafa trú á mér.
Það tók mig smá tíma að róa mig niður í gær og sjá hlutina í réttu ljósi.
Auðvitað á ég ekki að láta einhverja bitra manneskju hafa áhrif á mig.
Ef viðkomandi hefur ekkert betra að gera í vinnutíma sínum enn að bögga mig þá er fyrirtækið í alvarlegum málum.
Ég ætla ekki að nefna hvaða fyrirtæki um ræðir því það á ekki að bitna á fyrirtækinu í heild sinni þó svo að einhver starfsmaður þess eða örfáir starfsmenn kunni ekki almenna mannasiði.
Spurningin er samt sú ætli yfirmennirnir yrðu ánægðir ef þeir vissu hvað ákveðin starfsmaður sé að gera á vinnutíma sínum og tekur laun fyrir á meðan ??? Hmmm ... Ég efast stórlega um það. Allavega yrði ég ekki ánægð.

Því miður þá náðist ekki öll pappírsvinnan fyrir helgi þannig að ég fer ekki á morgunn. Þannig að næsti sunnudagur er því dagurinn sem við stefnum á... Vonandi kemur ekkert upp á með það.
Maður er aðeins farin að taka allt með varúð því þá er auðveldara að höndla ef hlutirnir ganga ekki upp. Annars trúi ég því að allt hafi sinn tilgang.

KV Ásta Lovísa

13.04.2007 16:24

Kjaftasögur ... Því miður :(

Því miður eru komnar í gang virkilega ljótar kjaftasögur um mig og vini mína... Ég er hreint út sagt orðlaus og ég er virkilega sár og reið því þetta er virkilega gripið úr lausu lofti !!!!!

Sögurnar eru þær að ég sé að misnota góðvild þjóðarinnar og að ég sé óheiðarleg. Það ganga þær sögur um mig að ég sé með fólk á bakvið mig sem að borgi allt sem við kemur NY fyrir mig og ég sé með því að misnota góðvild ykkar. Þetta er ekki rétt ... Því  þeir peningar sem hafa safnast  á styrktarreikninginn fara í veikindin mín en ekki peningar vina minna. Það er greinilegt að hér á Íslandi megi maður ekki eiga vini sem eru þekkt andlit án þess að kjaftasögurnar fari á kreik.

Ég vil fá að þakka ykkur öllum sem hafa sýnt mér stuðning á hvaða háttinn sem er.
Þið sem að efist um mig og talið um mig á ljótan hátt ... Verið ekki að styðja mig og hættið að dæma fólk sem þið þekkið ekki.
Ég er virkilega sár og reið núna. Þetta hefur haft það mikil áhrif á mig andlega að ég þarf að íhuga hvort að ég treysti mér að halda þessu bloggi áfram.

Ein af athugasemdunum sem ég hef fengið ... Komið frá sama aðilanum sem að vinnur á þekktum vinnustað í tölvugeiranum:

Sæl Ásta, þú þekkir mig ekki og mér finnst ekki skipta máli hver ég er... Ég vinn á mjög stórum vinnustað og það hefur mikið verið rætt um þig og þín veikindi, en núna er kominn annar tónn í umræðuna. Eins og þú veist er Ísland ekki stórt land svo margir þekkja marga, og núna er heistasta umræðan þessa dagana að þú sért að notfæra þér afstöðu þína og þessa söfnun, þar sem heyrst hefur að þegar séu komnir fram aðilar sem ætla að borga flug og allan kostnað sem til fellur í NY og fólki finnst réttlátt að þú látir vita af þessu, Mér finnst rétt að láta þig vita af þessu, þannig að þú sjálf getir komið með þetta fram og sért heyðarleg,.. það er nóg fyrir þig að eiga í þessum veikindum þó ekki komi líka til leiðindar umtal um þig sem hægt er að stoppa strax áður en þetta verður verra.

Kveðja, með ósk um góðan bata

Frá:

Ókunnug, ,



11.04.2007 21:16

Góðar fréttir ... :)

Þá er doksinn þarna úti búinn að hafa samband. Ég fer annað hvort út á sunnudaginn næsta eða þar næsta. Það fer eftir því hvort öll pappírsvinnan náist fyrir sunnudag... Það þarf víst að fylla út af því ég er ekki frá USA.
Guuuð hvað mér er létt... Ég var farin að hafa áhyggjur af því að hann væri hættur við . Þannig að NY er það .

Þetta eru ekki einu góðu fréttirnar sem ég hef að færa. Ég bað læknirinn minn um að kíkja á myndirnar mínar sem að voru teknar á skírdag þegar ég veikstist síðast. Hún hafði ekki séð þær því hún var ekki læknirinn sem var á vaktinni á deildinni þegar ég kom. Ég einhvern veginn trúði ekki alveg þessari ótrúlegu stækkun á svona stuttum tíma og vildi fá að heyra það frá mínum lækni líka.
Hún kíkti á myndirnar mínar í dag... Hún staðfesti að það hefði verið stækkun til staðar á þessum stutta tíma en ekki svona svakaleg.
Úffff þessi dagur er bara búin að vera æðislegur og bara allt að gerast.
Loksins loksins loksins loksins fékk ég þannig dag . Ástan er ekkert smá glöð og ánægð í dag !!!

Hamingjuknús á línuna ........

Kv Ásta Lovísa

10.04.2007 20:15

Info

Ég heyrði í doksanum mínum í dag. Hún er búin að vera að reyna á fullu að ná í doksann þarna úti og náði svo loks í ritarann hans.
Læknirinn úti ætlar að gefa sér einhverja daga til að fara betur yfir myndirnar mínar með fleiri krabbameinslæknum.
Vonandi þarf ég ekki að bíða neitt rosa lengi eftir því.
Ætla rétt að vona að hann fari ekki að hætta við heldur sé frekar að meta hvaða meðferð henti mér best.
Í dag hef ég verið frekar róleg yfir þessu öllu.... sem betur fer.
Ég fer í lyfjameðferð hér á landi á morgun eða hinn .. Betra að gera það fyrst ég er að bíða. 

Í dag skellti ég mér í heilun og í nudd.. Ohhh það var ekkert smá næs. Þurfti svooooo á þessu að halda til að halda geðheilsunni.
Líkaminn minn er víst allur í vöðvabólgu og hnútum þannig að það bíður mín mikil vinna og píning  ... Jamm það kostar víst það ef ég ætla að komast í betra lag .
Núna er ég frekar aum eftir átökin ... hehehe... og búin að ná mér í sæng og kodda og ætla að skríða upp í sófa.

Þannig að ég kasta kveðju á alla línuna.........

Kv Ásta Lovísa

09.04.2007 13:33

Biðin endalausa

Það er ennþá ekkert að frétta af NY... Þetta ætlar að verða biðin endalausa sýnist mér .
Læknirinn úti er búinn að vera í fríi yfir páskana og því ekkert hægt að ná í hann. Mér hefur fundist hvern dagur vera endalaust lengi að líða.
Vonandi hefur hann samband sem fyrst í vikunni.. Kvíða hnúturinn stækkar með hverjum deginum sem að líður.
Í fyrsta sinn í þessu veikindaferli mínu þarf ég að taka verkjatöflur á hverjum degi. Ég er farin að finna þó nokkuð til .. Mér finnst þetta frekar erfið þróun. Mannsi finnst þetta eitthvað svo langt gengið þegar maður er byrjaður að þjást.
Þetta var eitthvað svo fjarlægra þegar maður hvorki fann til né sá á manni að ég væri þetta alvarlega veik.

Samt sem áður er ég ekki tilbúin í að gefast upp. Ég ætla áfram að reyna allt .. Ég sveiflast samt frekar mikið til og bardagahugurinn misjafn... En ég veit samt að ég get ekki gefist upp strax því þá flýti ég fyrir þessari þróun og ég vil það ekki. Það koma samt dagar sem ég er alveg við það að gefast upp en svo fatta ég hvað ég hef mikið að lifa fyrir og fer aftur í gírinn.
Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 326
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 109914
Samtals gestir: 20853
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 03:00:04

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir

Afmælisdagur:

9. ágúst 1976

Um:

~ Söfnun ~ 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469

Tenglar