23.02.2007 14:49

Smá skrif

" ... Ég er ekki gefin fyrir uppgjöf. Ég berst þar til ég fell. Þetta er styrkur sem mér er í blóð borinn .... Það sem máli skiptir er að trúa á að meðan þú getur dregið andann eigirðu von. (Cicely Tyson)

Ég rakst á þetta gullkorn í bók sem mér var einu sinni fært. Mér þykir rosa vænt um þessi orð.. og þau eru svo rétt eitthvað.

Síðustu tveir dagar hjá mér hafa verið HELL. Ég hef ekki treyst mér að skrifa hér inn. Ég get varla lýst því hvað þetta kom mér á óvart. Ég virkilega trúði því að ég væri að lagast. Ég hafði ekki þurft að taka verkjalyf lengi, var með mun meira þrek og var farin að bæta aðeins á mig og ég tala nú ekki um hvað blóðprufurnar lofuðu góðu. En á meðan kraumaði krabba púkinn áfram og gaf frá sér fölsk skilaboð. Þetta segir mér samt hvað hugurinn ber mann langt. Ég virkilega trúði því að ég væri að lagast og með því kallaði ég fram betri líðan. Síðustu tvo daga eftir að ég fékk fréttirnar hef ég verið langt niðri og allir verkir komu aftur fram. Ég hef því þurft að taka inn verkjalyfin mín aftur og mér finnst ég vera stanslaust þreytt... VÁ það er greinilega margt skrítið í kýrhausnum.

Ég verð að vera hreinskilin og segja að von mín um að fá líf mitt aftur hefur minnkað eftir síðasta sjokk. Meinvörpin mín voru á ca 5-10% stóru svæði í lifrinni en hafa náð að fjölga sér í  ca 20% núna . Það lofar ekki góðu og ef þessi hraða þróun heldur áfram þá veit ég alveg að ég á ekki langt eftir. Ég er ekki að segja að ég sé alveg búin að gefast upp en ég er bara stödd núna í miðju sorgarferli og svartsýnispúkinn er sífelt að berja mig í hausinn.

Enn og aftur þurfti ég að taka erfiða ákvörðun með börnin. Núna er ég að fara að byrja í mjög agresívari meðferð sem verður í hverri viku núna en ekki aðra hvora eins og áður. Það leiðir af sér minni orku og minna þrek hjá mér til að geta hugsað um börnin mín. Næstu 6 vikurnar verða mjög erfiðar og er það því öllum fyrir bestu að þau verði bara hjá pöbbum sínum. Ég vil ekki bjóða þeim upp á að horfa upp á mig svona veika og ég vil frekar fá að hitta þau um helgar eða þá daga sem ég er hress. Strákurinn minn bara tók því ekki vel að horfa upp á mig þegar ég var sem verst og forðaðist að vera heima hjá sér. Þannig að ég get ekkert annað .

Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar frá ykkur og mailin. Ég frétti af því að það gengi mail um að kveikja á kertum fyrir mig kl 20 í kvöld ... Ég er alveg orðlaus hvað fólk getur verið yndislegt . Takk enn og aftur fyrir allt sem þið eruð að gera fyrir mig.

Kv Ásta Lovísa

 

Flettingar í dag: 829
Gestir í dag: 214
Flettingar í gær: 326
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 110613
Samtals gestir: 21011
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 13:46:36

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir

Afmælisdagur:

9. ágúst 1976

Um:

~ Söfnun ~ 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469

Tenglar