03.01.2007 18:50

Litla viðkvæma blómarósin :)

Í gærkvöldi skellti ég mér út að hitta hana Grétu  mína og kærasta hennar. Þau búa í Köben og voru að fara aftur heim í dag þannig að mig langaði að kveðja. Ég dró hann Didda minn með og hittumst við fyrst á Café Viktor og síðan lá leið okkar að sjá James Bond í bíó. Ég sat alveg heilluð yfir myndinni en svo allt í einu fékk ég þennan þvílíka risa kvíðahnút í magann og tárin fóru að streyma..... á James Bond af öllum myndum ...heheheheh.... Ég veit ekki alveg hvort það hafi stafað af því að Gréta væri að fara eða hvort að það hafi verið vegna dauða sem átti sér stað í myndinni. Kannski sambland af hvoru. Sú hugsun bara flaug í hausinn á mér þegar ég sá Bond sitja þarna niðurbrotinn með dömuna sína látna í fanginu að kannski myndi Diddi sitja með mig svona í fanginu niðurbrotinn af sorg innan einhvern tíma. Þessi staðreynd stakk mig eins og trilljón hnífar og ég bara gat ekki haldið aftur á tárunum. Samt tókst mér að fela þetta vel og Diddi var sá eini sem var var við að mér liði ekki vel. Brotnaði svo bara niður þegar við komum saman út í bíl og Diddi minn náði að róa mig niður. Hvað er að manni ???? James Bond af öllum myndum ... heheheh.... ekki eins og ég hafi verið á einhverri ástarvellu. ...en hey myndin er samt geggjuð mæli með henni!!!

Í gær sótti einnig stíft á mig hugsun... sem fékk mig til að líða illa. Eins og ég hef sagt áður þá lést mamma þegar ég var lítil stelpa. Mér fannst alltaf eitthvað vanta þó svo ég hefði aðra konu sem ég kalla mömmu sem hefur reynst mér 100%... þá fannst mér samt alltaf vanta eitthvað pínu þegar ég var á unglingsárunum. Þessi brenglaða hugsun mín á þessum tíma leiddi af sér að ég ákvað að skapa aðstæðurnar sjálf sem ég þráði. 18 ára byrjaði ég með gaur sem var 9 árum eldri en ég og varð ólétt af ásetningi. Þarna var ég búin að mynda móðir/barn tengsl sem ég þráði svo á þessum tíma. Í gær rann svo upp fyrir mér sú kalda staðreynd að aðstæður mínar í dag eru sláandi ef ekki óhugnalega líkar aðstæðunum sem ég ólst upp við. Bróðir minn kom elstur (Eins og Kristófer Daði). Þremur árum seinna kom ég (eins og Embla Eir) og svo loks kom Höddin mín 5 árum á eftir mér (Eins og Írena Rut). Hödd ólst upp hjá mömmu sinni sem ég kalla reyndar mömmu líka og ég og Daði ólumst upp saman. Það sem mér finnst svo skelfilegt við þetta er að ég er á sama aldri og mamma mín var þegar hún var veik og á endanum lést hún. Ef ég kem til með að fara þá koma börnin mín til með að alast upp eins. Írena sér og hin tvö sér. Með leikriti mínu í upphafi er ég búin að skapa þeim sama veruleika og ég þoldi ekki. Ekkert smá skrítið þetta líf og það má segja að það sé svo sannarlega óútreiknanlegt. Ég kona í minni aðstöðu kemst ekki hjá því að velta fyrir mér hvernig börnin mín koma til með að plumma sig í lífinu án mín. Í dag eru freistingarnar mun fleiri heldur en var áður fyrr og ég verð bara að segja að þetta nagar mig pínu. Ég er ekki að segja að ég sé farin að gefast upp ... alls ekki.... þetta eru bara hugsanir sem ásóttu minn skrítna haus í gær.

 

Flettingar í dag: 381
Gestir í dag: 103
Flettingar í gær: 159
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 147723
Samtals gestir: 24709
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:53:42

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir

Afmælisdagur:

9. ágúst 1976

Um:

~ Söfnun ~ 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469

Tenglar