29.12.2006 21:52

Friday

Dagurinn í dag er búinn að vera frábær dagur. Ég svaf lengi út enda ekki skrítið því ég svaf ekki nema 4 tíma nóttina þar áður. Hitti hana Grétu mína. Skelltum okkur fyrst út að borða á Vegamótum .. hehehe ... kemur ekki á óvart ....sá staður verður yfirleitt fyrir valinu ef ég fæ að ráða . Þaðan lá leið okkar upp á spítala því ég átti að losna við dæluna í dag. En því miður kom það í ljós að það hefur myndast einhver stífla í lyfjabrunninum mínum og lyfið því ekki náð að komast inn í líkamann þannig að þær losuðu um stífluna og ég verð að hafa fröken dælu einn sólahring lengur. Það verður bara að hafa það . Eftir það skelltum við okkur í Kringluna og ég verslaði smá föt á krakkana á útsölunni í Hagkaup. Fannst samt úrvalið þar frekar lélegt.

Þessi lyfjatörn er búin að vera nokkuð góð. Reyndar er ég á tvöföldum steraskammti svo mikið hef ég ekki fengið áður. Ég varð bara svo veik síðast þannig að doksi vildi auka við sterana og ógleðislyfin. Mér finnst það fínt fyrir utan ofvirknina sem virðist fylgja sterunum. Annað hvort verður maður virkilega hátt uppi með munnræpuna á fullu, brosandi allan hringinn eða þá að maður fellur langt niður í hálfgert þunglyndi. Ég hef einu sinni lent í þunglyndinu annars er ég yfirleitt þessi á bremsulausa bílnum sem ræður ekki við sig. Mér finnst það nú skárri kostur af tvennu illu . Lendi samt stundum í því að fólkið mitt sussi á mig því allt í einu er ég farin að tala svo hátt eða þá að ég sé spurð hvort ég sé ekkert að verða þreytt í munninum ... heheheh.... mér finnst það bara frekar fyndið . Einu sinni opnaði ég ískápinn minn ca 17 sinnum og mamma spurði mig hvort að ég héldi virkilega að eitthvað myndi breytast inni í honum á milli þess sem ég opnaði ... hahahahhaha.... ég bara réð ekki við mig.

Gréta mín er nýfarin og ég er búið að koma mér í kósý náttbuxur og hlýrabol. Ég er sko náttbuxnasjúk og ég veit hreinlega ekki hversu margar náttbuxur ég á. Elska að hoppa í þær þegar ég er heima og kúra undir sæng og horfa á imbann eða lesa góða bók. Ég er frekar heimakær og finnst gott að letast hér heima en stundum á ég erfitt með að vera ein með sjálfri mér því eins og þið hafið kannski verið vör við.......þá á hausinn á mér stundum það til að fara á flakk og á mig sækja erfiðar hugsanir..... En eins og núna þá er ég alveg róleg og er mjög bjartsýn á framhaldið og finnst virkilega gott að vera ein með sjálfri mér. Sleppi því bara að kveikja á tónlistinni minni ... veit ekki alveg hvað það er með tónlistina..... einhvern veginn þá opnar hún allar gáttir og þá fer ég að skæla eins og barn. Frekar skrítið og ég hreinlega skil ekki afhverju þetta gerist alltaf. Get hlustað á hana með öðrum en ekki þegar ég er ein. Kannski á maður bara að kveikja á henni reglulega til að hreinsa út en mér finnst virkilega vont að fá kvíðakast þegar ég er ein.

Mig langar að spyrja ykkur lesendur góðir hvernig hugsið þið til dauðans ??? Hræðist þið hann ??? Haldið þið að við deyjum og fæðumst aftur seinna ??? Hittum við ættingja og vini sem hafa dáið á undan okkur ??? Er líkaminn okkar bara hulstur eða eins og bíll sem að bilar og skemmist með tímanum og við fáum svo annað hulstur seinna þegar við höfum náð einhverjum þroska ??? Eða er bara allt svart eftir að við deyjum og öllu lokið ??? Ég hef stundum sjálf velt þessu fyrir mér. Mér finnst pínu óhugsandi að öllu sé bara lokið þegar við deyjum. Ég vona allavega að þegar minn tími kemur að ég fái að hitta alla ættingja mína sem eru farnir. Finnst eitthvað svo óhugsandi og óaðlaðandi að hugsa til þess að allt sé bara svart og maður rotnar í einhverri mold. Afhverju deyja þá sumir sem ungabörn eða ungir??? Hver var þá eiginlega tilgangurinn með þeirra stuttu komu í þetta líf ???

Flettingar í dag: 427
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 159
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 147769
Samtals gestir: 24722
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:15:24

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir

Afmælisdagur:

9. ágúst 1976

Um:

~ Söfnun ~ 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469

Tenglar