22.12.2006 19:31

Þreyta spreyta

Úfff púff... Ég er alveg búin á því eftir daginn. Þó svo ég reyni að taka því rólega þá eru bara svo margir hlutir sem ég þarf að gera fyrir jólin og því miður þá er ég allt of fljót að þreytast . Var farin út fyrir hádegi og var ég ekki komin heim fyrr en um 17. Gréta vinkona var sem betur fer með í för því ég var með þau tvö elstu með mér og var hún í fullri vinnu við að hjálpa mér og stilla til friðar milli systkinana. Þau alveg elska hvort annað þessa dagana eða þannig . Mamma var líka svo frábær að leyfa Kristófer að vera með sér í vinnunni hluta af deginum þannig að dagurinn reddaðist vel þrátt fyrir allt. Það er ekkert smá skrítið hversu fljótt ég er að þreytast.... stundum líður mér eins og gamlingja án gríns og  ég á pínu erfitt með að sætta mig við það.

Eins og ég sagði áður þá kom Gréta mín mér til bjargar í dag. Hún kom til landsins í gær og vá hvað það var gott að sjá hana. Hef ekki séð hana í tæpt ár því hún býr erlendis. Finnst frábært að hafa hana hérna á landinu ... verst bara hvað hún stoppar stutt .

Fjölskyldan skellti sér saman á Sjávarkjallarann í gærkvöldi til að fagna saman afmæli litlu sys. VÁ þessi staður er geggjaður án gríns. Ekkert smá flottur staður, geggjaður matur og þjónustan til fyrirmyndar. Pöntuðum okkur rosa spes samsetningu sem þeir voru að bjóða upp á. Það voru bornir á borð fullt af allskyns forréttum sem að allir fengu að smakka á. Sama var með aðalréttinn fengum fullt af réttum allt frá saltfiski og túnfisk upp í hreindýr. Eftirrétturinn var með sama sniði og ég var fljót að týna tölunni af fjölda rétta sem ég smakkaði og meira að segja margt sem ég hélt að ég myndi aldrei þora að smakka. Allir fóru veltandi út með bros á vör  .

Á morgunn er Þorláksmessa. Þá fæ ég hana Írenu mína líka . Mér finnst æðislegt að fá að hafa krakkana mína um jólin .... hefði ekki tekið annað í mál í ljósi aðstæðna. Er samt pínu hrædd um úthaldið mitt. Er hrædd um að verða of fljótt þreytt og pirruð. Þoli ekki að vera svona ...... pirr pirr pirr. Við vitum öll hversu fjörug og lífleg börn eru á jólunum . Verðum samt mörg saman þannig að ég veit alveg að ég fæ hjálp við að reyna að halda ró á liðinu en er samt pínu kvíðin .. hehhehe... fröken Ásta þarf alltaf að hafa áhyggjur af einhverju . Verður samt frábært að fá að njóta þess að vera með börnunum mínum og með fjölskyldu minni á þessari stundu ....og  ekki er verra að fá góðan mat líka .... mmmmmm.... mér skilst að það verði 3 rétta matseðill a la mamma og Hödd og vonandi líka a la Ásta  .

Lyfjameðferðin hefst svo með fullum krafti 27 des. Þá er Avastinið komið aftur á dagskrá sem betur fer og vonandi höndla ég lyfin betur en síðast.

Veit ekki hvort ég komist í það að blogga á morgunn og hinn enda nóg að gera. Það verður bara að koma í ljós. Til vonar og vara ætla ég að óska ykkur öllum gleðilegra jóla . Ef það er einhver sem er að velta því fyrir sér afhverju það hafi ekki  borist neitt jólakort frá mér þessi jól... þá bara nennti ég ekki að senda nein jólakort núna.....  en ég lofa að taka mig á og geri það næstu jól .

Knús og klemm

Kv Ásta Lovísa

 

 

Flettingar í dag: 427
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 159
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 147769
Samtals gestir: 24722
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:15:24

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir

Afmælisdagur:

9. ágúst 1976

Um:

~ Söfnun ~ 0525-14-102510 Kt:09.08.76-5469

Tenglar